Keflavíkurflugvöllur á topplistanum í Kaupmannahöfn

Það flugu að jafnaði nærri tvö þúsund farþegar á dag milli Keflavíkur og Kastrup í júní.

Horft yfir álmu númer þrjú á Kaupmannahafnarflugvelli. MYND: CPH

Yfir sumarmánuðina er fjölgar ferðunum milli Íslands og höfuðborgar Danmerkur og til að mynda fljúga þotur Icelandair allt að fimm sinnum á dag til borgarinnar. Auk þess halda bæði Play og SAS úti daglegum ferðum á þessari leið.

Framboðið er því mikið og í júní nýttu ríflega 55 þúsund farþegar sér þessar ferðir milli Kaupmannahafnar og Keflavíkurflugvallar. Það jafngildir því að 2,4 prósent allra farþega á danska flugvellinum hafi verið að koma úr flugi frá Keflavík eða á leiðinni þangað. Í júní 2019 voru farþegarnir aðeins fleiri eða 59 þúsund.

Þá var íslenski flugvöllurinn í níunda sæti á listanum yfir þá flugvelli sem flestir flugu til frá Kaupmannahöfn en í nýliðnum júní fór Keflavíkurflugvöllur upp í sjöunda sæti.

Þetta sýna tölur frá flugmálayfirvöldum í Kaupmannahöfn en hér á landi eru upplýsingar sem þessar ekki opinberar. Á þennan skort á upplýsingagjöf hefur Túristi margsinnis bent á og kært til úrskurðarnefndar upplýsingamála en án árangurs.