Kostnaðurinn lækkað um helming frá ársbyrjun

Mynd: Schiphol

Play flutti 87.932 farþega í júní sem er ríflega helmings aukning frá því í maí og að jafnaði voru átta af hverjum tíu sætum skipuð farþegum. Í tilkynningu er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play, að einingarkostnaður félagsins hafi „snarlækkað“ og hann sé kominn niður fyrir fjögur dollarasent.

Það jafngildir um 5 krónum en til samanburðar var einingakostnaður Play ríflega tíu krónur á fyrsta fjórðungi ársins eins og sjá má hér fyrir neðan.

Lækkunin nemur um helmingi en þó verður að hafa í huga að kaup á eldsneyti og losunarheimildum eru ekki meðtalin. Verð á hvoru tveggja hefur verið hátt í ár og sérstaklega olíuverð en í rekstri flugfélaga eru kaup á eldsneyti vanalega næststærsti kostnaðarliðurinn á eftir launum starfsfólks.

Play kynnti nýverið samning við Skeljung um fast verð á fimmtung af eldsneytisnotkuninni. Samkomulagið gerir ráð fyrir að Play borgi 1.210 dollara fyrir tonnið út sumarið en í dag er heimsmarkaðsverðið tæplega tíund lægra en samningsverðið kveður á um.

Í tilkynningu dagsins frá Play segir að félagið hafi nú fest verð á hærra hlutfalli af notkuninni en ekki fást upplýsingar um hversu hátt hlutfall eða á hvaða verði.