Lystiskipin koma hvert af öðru

Komur lystiskipa til Reykjavíkur eru nú orðnar jafn margar og þær voru fyrir heimsfaraldur. Búist er við enn fleirum á næsta ári.

Lystiskip við Skarfabakka
MSC Magnifica við Skarfabakka Mynd: Óðinn Jónsson

Bandaríska lystiskipið Sky Princess, sem sjósett var 2019 og siglir undir fána Bermúda, lagðist að Skarfabakka í Reykjavíkurhöfn á þriðjudag með um 3.500 farþega. Þetta var fyrsta koma skipsins til Reykjavíkur og var því fagnað við athöfn um borð, þar sem skipst var á veggskjöldum til minningar.

Í augum forráðamanna Faxaflóahafna markaði þessi koma Sky Princess ánægjuleg tímamót af því að með henni var fjöldi lystiskipa á árinu kominn á sama stað og á sama tíma árið 2019 – fyrir heimsfaraldur – en það var metár í komum lystiskipa til Reykjavíkur.

Um 50 lystiskip eru væntanleg til Reykjavíkur nú í júlímánuði og áfram verða komur þeirra tíðar á næstu mánuðum. Metárið 2019 verður a.m.k. jafnað. Þá bendir bókunarstaðan fyrir 2023 til þess að komum lystiskipa í Faxaflóahafnir fjölgi um 20 prósent.

Sky Princess er á leið til hafnar í Southampton á Englandi.

Við Skarfabakka liggur nú MSC Magnifica, skip í eigu Mediterranean Shipping Company á Ítalíu, skráð í Panama, smíðað 2009.

Árið 2020 var Magnifica synjað um að koma til hafnar í Ástralíu vegna þess að yfirvöld töldu ranglega að Covid-sjúklingur væri um borð. Sagan endurtók sig í Dubai. Loks var farþegum hleypt frá borði í Marseille í Frakklandi um mánuði eftir að Ástralir höfðu meinað þeim landgöngu. Nú eru engin slík vandræði uppi – og vonandi njóta farþegarnir 2.550 og þúsund manna áhöfn viðkomunnar á Íslandi.

Þú færð aðgang að öllu efni Túrista næstu tvo mánuði fyrir 2.000 kr. Notaðu afsláttarkóðann SUMAR2022 hér. Áskrift endurnýjast á fullu verði í framhaldinu en alltaf hægt að segja upp.