Mótvindur hjá stærsta erlenda flugfélaginu á Keflavíkurflugvelli

MYND: WIZZ AIR

Eftir fall Wow Air þá varð hið ungverska Wizz Air umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli á eftir Icelandair. Nú hefur Play tekið við því sæti en áfram er Wizz Air stórtækt í Íslandsflugi. Hingað fljúga þotur félagsins frá þrettán evrópskum borgum þar af fimm pólskum og fjórum á Ítalíu en stjórnendur Wizz Air hafa nýtt heimsfaraldurinn í að hasla sér völl í vesturhluta Evrópu.

Sú útrás hefur ekki skilað sér í jákvæðri afkomu, alla vega ekki enn sem komið því tap félagsins á öðrum fjórðungi ársins, apríl til júní, nam um 63 milljörðum króna (452,5 milljónir evra) samkvæmt nýju uppgjöri. Farþegarnir á þessu tímabili voru þó 17 prósent fleiri en á sama tíma árið 2019 en flota Wizz Air eru í dag 157 þotur eða um fimmfalt fleiri en Icelandair hefur yfir að ráða.

Wizz Air er í dag næststærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu og eins opnaði félagið dótturfélag í Abu Dhabi í fyrra. Eigendur félagsins eru einnig í viðræðum við ráðamenn í Sádí-Arabíu um flugrekstur þar í landi.

Til viðbótar við þessa landvinninga í Miðausturlöndum þá sjá stjórnendur Wizz Air tækifæri í leiguflugi frá Evrópu til Bandaríkjanna. Samgönguyfirvöld vestanhafs treysta sér þó ekki til að gefa félaginu grænt ljós á þess háttar farþegaflutninga þar sem ekki liggja fyrir nógu góðar upplýsingar um að Wizz Air sinni flugöryggismálum með fullnægjandi hætti.

Ennþá hafa stjórnendur Wizz Air ekki brugðist opinberlega við þessari niðurstöðu en ekki er langt síðan forstjóri félagsins gagnrýndi flugmenn félagsins fyrir að kveinka sér undan vinnuálagi. Starfsmenn Wizz Air geta heldur ekki leitað til stéttarfélaga því stjórnendur flugfélagsins virða þess háttar félög að vettugi.

Sú harða afstaða hefur meðal annars orðið til þess að ráðamenn í Noregi hafa tekið fyrir að fljúga með félaginu. Ekki hefur heyrst af samskonar andstöðu meðal íslenskra pólitíkusa en sem fyrr segir er Wizz Air umsvifamesta erlenda flugfélagið hér á landi.