Mun hærri tekjur af hverjum farþega

Icelandair var réttum megin við núllið síðustu þrjá mánuði. Farþegatekjurnar drógust hlutfallslega minna saman en framboðið. Eldsneytisreikningurinn var aftur á móti hærri en áður.

Hátt í eitt þúsund starfsmenn voru ráðnir til starfa hjá Icelandair á síðasta ársfjórðungi. Mynd: Denver Airport

Hagnaður Icelandair nam 496 milljónum króna í apríl til júní í ár en til samanburðar var hagnaðurinn um sjö hundruð milljónum hærri á sama tíma árið 2017 en það ár var Icelandair síðast rekið með hagnaði. Í samanburði við tímabilið sem litaðist af Covid-19 er framförin mikil.

Umsvifin flugfélagsins hafa líka aukist verulega að undanförnu og framboð á öðrum ársfjórðungi var fjórðungi minna en á sama tíma árið 2019 og farþegunum fækkaði um 27 prósent. Farþegatekjurnar drógust hlutfallslega mun minna saman eða um ellefu prósent í bandaríkjadollurum talið þannig að tekjur Icelandair af hverjum farþega hafa verið töluvert hærri en áður.

Á móti kemur að eldsneytisútgjöld félagsins voru mun meiri því Icelandair borgaði 13,9 milljarða króna fyrir eldsneyti síðustu þrjá mánuði eða um 2,6 milljörðum kr. meira en á sama tíma árið 2019. Það kemur þó fram í uppgjöri flugfélagsins að eldneytisreikningurinn hefði hækkað um 2,7 milljarða króna ef ekki hefði verið fyrir sparneyttari Boeing Max þotur. Það eru aftur á móti ekki sæti fyrir eins marga í nýju þotunum þannig að eldsneytisreikningurinn deilist í raun á færri farþega.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningu að útlitið í rekstrinum sé gott og hann gerir ráð fyrir hagnaði á seinni hluta ársins. Tapið á fyrri helmingi ársins nam 5,9 milljörðum króna.

„Horfurnar fyrir þriðja ársfjórðung eru góðar og bókunarstaða sterk. Við gerum ráð fyrir að flugáætlun okkar í þriðja ársfjórðungi muni ná 83 prósent af framboði félagsins á sama tíma 2019 og um 90 prósent af framboðinu 2019 í fjórða ársfjórðungi, þrátt fyrir að óvissa ríki enn í rekstrarumhverfinu. Það er ánægjulegt að sjá mikla eftirspurn eftir ferðum til Íslands og að vægi tengifarþega sé jafnframt að aukast. Þá eru horfurnar góðar fyrir frakt- og leiguflugstarfsemi okkar.”