Samfélagsmiðlar

„Samkeppnin varð til góðs“

„Ég myndi segja að samkeppnin hafi lengst af verið mjög óvægin,” segir Stefán Guðmundsson hjá Gentle Giants í hvalaskoðunarbænum Húsavík. Hann segir að samkeppnin hafi hinsvegar gagnast bænum. Hann er andvígur hugmyndinni um að markaðssetja eigi Ísland fyrir hina ríku. Styrkleiki felist í fjölbreytni.

Stefán Guðmundsson, eigandi Gentle Giants á Húsavík.

Það mun hafa verið í vestranum The Western Code frá árinu 1932 að eftirfarandi setning flaug sem varð að frasa: „Þessi bær er of lítill fyrir okkur báða.” Nú 90 árum síðar komu þessi orð í huga Túrista í heimsókn til Húsavíkur, þar sem rætt var við tvo forkólfa hvalaskoðunarferða á Skjálfanda, Hörð Sigurbjarnarson, stofnanda og aðaleiganda Norðursiglingar, og Stefán Guðmundsson, eiganda og framkvæmdastjóra Gentle Giants. Það hefur stundum verið grunnt á því góða í samskiptum manna þarna fyrir norðan. Átök eða spenna ríkt á viðskiptalegum og pólitískum vettvangi. Væri sú saga öll efni í góða sjónvarpsseríu. 

Hér látum við duga að segja frá Gentle Giants, sem tekist hefur að lifa af grjótharða samkeppni við Norðursiglingu sem á lengri sögu. Stefán er beðinn um prenthæft svar við spurningunni: Hvernig lýsir þú samkeppni Gentle Giants og Norðursiglingar?

Óvægin samkeppni

„Ég myndi segja að samkeppnin hafi lengst af verið mjög óvægin. Við vorum litla fyrirtækið til að byrja með en höfðum mjög skýr markmið um það hvert við værum að stefna og höfum haldið okkur mjög ákveðið á þeirri braut. Við vitum enn hvert við stefnum. Þegar á heildina er litið hér á Húsavík þá held ég að menn séu að átta sig á því, sem ég hef alltaf vitað, að heilbrigð samkeppni er af hinu góða. Hún býr til ákveðna fjölbreytni í flóru ferðamennskunnar sem styður þá allt annað. Og af því að við erum hér í vöggu kaupfélaganna, þá má segja að sú hugsun sem bjó að baki stofnun þeirra hafi verið gulls ígildi á sínum tíma. Síðan missa menn sjónar á hugsjónum og gleyma uppruna sínum. Ég held að það hafi orðið ferðaþjónustu á Húsavík til happs að til urðu fleiri en eitt fyrirtæki í hvalaskoðun. Samkeppnin varð til góðs.”

Árið 2002 tekur Stefán við Faldi, báti Hvalaferða á Húsavík, og í framhaldinu fer hann í að skapa nýja ímynd á rekstrinum. Til verður hvalaskoðunarfyrirtæki með ensku heiti: Gentle Giants – til heiðurs hinum gæflyndu risum undirdjúpanna. Fyrstu fimm árin var Stefán skipstjóri á bátum fjölskylduútgerðarinnar en starfrækti hvalaskoðunarfyrirtækið meðfram því. 

Mestu verðmætin í starfsfólkinu

Nú er árið 2022 – fyrsta árið eftir heimsfaraldur, sem er nú reyndar ekki eina áfallið sem ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi hafa þurft að ganga í gegnum.

„Við fórum í gegnum bankahrun, áttum engar erlendar skuldir og heldur engan pening. Sennilega bjargaði það manni. Við erum búin að sjá helvíti margt á þessum 20 árum: bankahrun, Eyjafjallagos, sveiflur í túrismanum – og Covid-19. Það var aldrei spurning hvort við kæmumst í gegnum heimsfaraldurinn, aðeins hvernig. Nú erum við tiltölulega kát með lífið. Við höfum farið gætilega í allar fjárfestingar og uppbyggingu, reynt að átta okkur á stöðunni og haga seglum eftir vindi. Þarna kemur að gagni reynsla sem maður öðlaðist ungur og jafn mikilvægt er að við höfum haft sama kjarna starfsfólks frá upphafi. Starfsfólkið er mestu verðmætin í fyrirtækinu.” Stefán nefnir meðal annarra Maríu frá Valencia á Spáni, sem er nú á sinni átjándu hvalaskoðunarvertíð hjá Gentle Giants. 

Við skulum halda okkur við að kalla hvalaskoðunartímabilin vertíðir. Við þekkjum það orð. En staðreyndin er sú að vertíðirnar lengjast stöðugt. Stefán segir að í byrjun hafi vertíðin staðið frá miðjum júní fram í miðjan ágúst. Nú teygi hún sig yfir níu mánuði, frá mars til loka nóvember. 

Sjálf útgerðin hefur líka vaxið jafnt og þétt, frá einum báti upp í átta fyrir heimsfaraldur. Þá voru starfsmenn orðnir 52 en eru nú um 40. 

Rætur um allan Skjálfanda

Eitt af því sem Túristi rekur augun í eru RIB-bátar í höfninni. Gentle Giants á fimm slíka báta og notar við hvalaskoðun. Bátarnir bera allir nöfn á ömmum og langömmum Stefáns. Fyrsti báturinn, Amma Sigga, var nefndur eftir einni þeirra, konu sem ólst upp í Vargsnesi ofan Rauðavíkur undir Viknafjöllum. Hún ólst þar upp sem einkabarn foreldra sinna. Faðir hennar var tónelskur maður og lék á orgel og vildi að dóttir hans fetaði sömu braut. Réri hann við annan mann til Húsavíkur, sótti orgel og flutti yfir í Rauðavík. Dóttirin var átta ára gömul og hljóp niður í fjöru þangað sem orgelið var komið. Segir sagan að stúlkan hafi ekki linnt látum fyrr en rifið var utan af hljóðfærinu þarna í fjörunni og hún fengið að slá fyrstu nóturnar. Hljóðfærið báru svo faðir hennar og bræður hans upp í bæinn. 

Margir þekkja þessa sögu en hún er Stefáni dýrmæt enda var þessi stúlka föðuramma hans, Sigríður Sigurbjörnsdóttir, sem átti eftir að verða organisti í Flatey í áratugi. Eiginmaður Sigríðar var Hólmgeir Árnason frá Knarrareyri á Flateyjardal. Sonur þeirra er Guðmundur A. Hólmgeirsson, sem ásamt konu sinni, Helgu Jónínu Stefánsdóttur, hefur verið í útgerð í meira en hálfa öld. Það er því ekki ofmælt að segja að rætur Stefáns í Gentle Giants liggi allt í kringum Skjálfanda. En skipta þessar rætur máli í rekstri ferðaþjónustufyrirtækis sem leitar viðskiptavina um allan heim í gegnum alþjóðlegar bókunarsíður? 

„Ræturnar skipta öllu máli. Við erum afskaplega stolt af sögu fjölskyldunnar. Það eru fáir sem geta sagt svona sögur og tengt sig við allan flóann.” 

Brjáluð vinna baksviðs

Við gætum lengi rakið sögu fólksins og byggðanna við Skjálfanda en verðum að halda þræði í að ræða þetta nútímavafstur sem forfeðrum Stefáns hefði nú kannski þótt fáfengilegt: hvalaskoðunarferðir. Hver hefði nú trúað því fyrir nokkrum áratugum, hvað þá einni öld, að í þessu plássi væri það gróðavænlegur bissniss að sigla með útlenda túrista um Skjálfanda og skima eftir hvölum – án þess að láta sér til hugar koma að drepa þá?

„Þessi bransi er þannig að menn byrja með einhverja vöru og bíða eftir viðbrögðum túristans, bæta síðan nýju við. Við sækjum sýningar erlendis og fáum fólk frá ferðaskrifstofum hingað í heimsókn. Hittum kannski einhvern og förum yfir málin. Svo líður ár, tvö eða fjögur, og þá kemur viðkomandi með kúnna. Þetta er brjáluð vinna sem fram fer baksviðs.

Nú í byrjun september þurfum við að vera klár með brottfarartíma á næsta ári, verð og vörur sem við ætlum að bjóða. Þetta sendum við á innlendar og erlendar ferðaskrifstofur, sem velja úr og koma fyrir í sínum kerfum eða það rúllar áfram á annan og þriðja aðila og inn í þeirra sölukerfi.” 

Horfurnar fyrir haustið

Nú geisar verðbólga og olíuverð er hátt. Hvernig fótar hvalaskoðunarfyrirtæki sig í þessum aðstæðum – hverjar eru horfurnar?

„Horfurnar eru nokkuð bjartar. Við förum bara af stað og teljum okkar hafa dálítið svigrúm, nokkur prósent til eða frá. Stundum verður maður að kyngja því sem verður á veginum. Maður er vanur að fá seltuna í andlitið.”

Afkoman getur sveiflast mikið eftir hreyfingum á gengi litlu krónunnar en Stefán gengistryggir sig ekki – enda fara olíufélögin oft sínu fram í verðlagningu hér heima óháð heimsmarkaðsverði og vísa til birgðastöðu á bensíni. 

„Við eins og allir erum að reyna að ráða í það hvað geti gerst – en okkur er ekki vel við að fikta í verði sem búið er að ákveða, þó hægt væri að finna alls konar skýringar. Við bregðumst við verðsveiflum með öðrum hættti, klippum aðeins af hverjum túr, keyrum hægar. Covid-19 var ekki alslæmt. Við þurftum að skera inn að beini og veltum við hverjum steini. Það gafst tími til að hugsa. Brottfarartíðni fyrir faraldurinn var komin út í vitleysu.”

Baráttan færst af bakkanum á bókunarsíðurnar

Ferðamaður sem kemur til Húsavíkur rekur fljótt augun í sölustarfið á bakkanum ofan hafnarinnar. Hvalaskoðunarfyrirtækin eru þar rúmfrek. En hversu miklu máli skiptir þetta beina sölustarf í dag?

„Fyrir 20 árum voru um 90 prósent ferða greiddar yfir borðið. Þetta hefur verið að snúast hratt við. Nú eru kannski innan við fimm prósent ferða seldar með þeim hætti. Megnið er greitt fyrirfram með kortum á okkar eigin bókunarsíðu eða öðrum síðum.”

Flest fólkið sem maður sér þarna á gamla kaupfélagsplaninu er sem sagt löngu búið að greiða fyrir væntanlega ferð og er með miðann í snjallsímanum. Stefán segir jákvætt að baráttan um kúnnann fari ekki lengur fram þarna. Mikill léttir fylgi nýju fyrirkomulagi, nýrri tækni, að þurfa ekki að vafstra með reiðufé. Hægt sé að fylgjast með söluhreyfingum í iPad og enginn þurfi að rjúka frá til að gera upp kassann. 

Misskilningur að rétt sé að fá bara ríka fólkið

Við ræðum líka stöðu ferðaþjónustunnar í landinu. Stefán hefur auðvitað sínar skoðanir á stefnu okkar í þeim efnum.

„Ég hafði lúmskt gaman af því fyrir 10 til 15 árum þegar nokkrir málsmetandi menn komu fram og töluðu um að Ísland ætti að vera dýrt og ýjuðu að því að við ættum bara að einbeita okkur að því að ná í fimm-stjörnu-farþega. Ég var algjörlega á móti þessu. Skólakrakkar, sem hafa komið hingað á veturna síðustu 20 árin og héldu rútufyrirtækjum gangandi en skiluðu ekki miklu, eru hluti af bestu langtíma markaðssetningu sem Ísland hefur stundað. Það er nefnilega pottþétt að 15 eða 16 ára krakkar munu koma aftur með fullt af peningum. Þetta þarf því að halda áfram. 

Því meiri fjölbreytni því blómlegri verður ferðaþjónustan. 

Það er misskilningur ef menn halda að við getum haft einsleita ferðaþjónustu og látið hana blómstra. Allt sem er einsleitt, hvort sem það er ferðaþjónusta eða annað, verður fyrir skakkaföllum á endanum. Fjölbreytni rennir styrkari stoðum undir heildina. Ég vil sjá bakpokaliðið þó að það eyði litlu. Það sendir myndir á samfélagsmiðla. Svo hef ég tekið eftir því á síðustu árum að forríkt fólk, sem við flytjum um á þyrlum út í Flatey og víðar, segist ekki nenna að koma á enn einn nýjan staðinn og gista á enn einu fimm-stjörnu-hótelinu. Þetta fólk vill jafnvel gista í tjöldum eða hér uppi á lofti, hverfa burt úr skarkalanum.”   

Áfram til sjós

Stefán hefur verið til sjós frá því að hann var strákur en kynni hans af Bandaríkjunum þegar hann var þar skiptinemi breyttu viðhorfum hans – ekki síst til þess hvernig standa mætti að því að selja vörur og þjónustu. Nafnið Gentle Giants vitnar um alþjóðlega sýn, nafnið átti að vera þjált og vekja réttar kenndir hjá kúnnum um heim allan. Velgengni fyrirtækisins, eins og margra annarra, byggist samt fyrst og síðast á mikilli eljusemi og þekkingu á aðstæðum. En ætli Stefán sjái fyrir sér að verða áfram í þessum rekstri – stýra bátum á Skjálfanda og fræða ferðafólk um náttúruna, hvali, fiska og fugla?

„Já, mér finnst þetta svo gaman. Maður sinnir rekstrinum frá a til ö – og svo þykir mér ofboðslega gaman að fara út á bátunum, sigla með fólk og kynna náttúruna fyrir því.” 

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …