Samningaviðræðum haldið áfram í nótt

Þota SAS á flugi við Arlanda flugvöll í Stokkhólmi. MYND: SAS

Sá frestur sem flugmenn SAS gáfu vinnuveitanda sínum til að koma til móts við kröfur þeirra rann út á miðnætti að skandinavískum tíma. Viðræðunum verður hins vegar haldið áfram til klukkan ellefu á morgun samkvæmt tilkynningu. Boðað verkfall hefði átt að hefjast aðfaranótt miðvikudags en þá ákváðu viðsemjendur að gefa sér þrjá sólarhringa til viðbótar. Sá frestur rann út nú í kvöld.

Vinnudeilan snýst um umfangsmiklar breytingar á flugrekstri SAS sem hafa það í för með sér að ný dótturfélög taka við flugstarfseminni og eins ráðningasamningum flugmanna. Einnig vilja stjórnendur SAS að flugmenn samþykki kjaraskerðingar og aukna vinnuskyldu.

Flugmenn hafa að hluta til komið til móts við seinni kröfuna en vilja ekki gefa grænt ljós á breytingar á ráðningasamningum. Einnig vilja þeir halda fast í þá reglu að flugmenn séu endurráðnir eftir starfsaldri en ennþá er stór hluti þeirra flugmanna sem misstu starfið í heimsfaraldrinum án atvinnu.

SAS er stærsta flugfélag Norðurlanda og verkfall flugmanna myndi hafa áhrif á ferðalög að minnsta kosti þrjátíu þúsund farþega á dag. Skandinavískir fjölmiðlar fylgjast því vel með gangi mála í kjaraviðræðunum og hafa flutt fréttir í dag af spennunni sem ríkir við samningaborðið í Stokkhólmi.

Á áætlun SAS á morgun eru tvær ferðir til Íslands. Önnur þeirra er frá Kaupmannahöfn og samkvæmt heimasíðu flugfélagsins má gera ráð fyrir að sú verði á áætlun.

Aftur á móti er ferðin frá Ósló til Keflavíkurflugvallar sögð líkleg til að falla niður. Skýringin er sú að Kaupmannahafnarflugið er á vegum dótturfélagsins SAS Connect. Flugmenn sem eru ráðnir hjá því félagi eru ekki á leið í verkfall öfugt við kollega þeirra sem eru í vinnu hjá móðurfélaginu sjálfu en þeir eiga að fljúga þotunni hingað frá Ósló á morgun.

Uppfært: Upphaflega gáfu viðsemjendur sér frest til klukkan fimm í nótt en framlengdu svo um sex tíma í viðbót eða fram til klukkan ellefu, laugardag.