SAS sækir um gjaldþrotavernd vestanhafs

Hollendingurinn Anko van der Werff er forstjóri SAS. Mynd: SAS

Skandinavíska flugfélagið SAS hefur sótt um greiðslu­stöðvun í Bandaríkjunum eða svokallaða Chap­ter 11 til­hög­un en hún gefur fyrirtækjum í greiðslu­vanda ráðrúm til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Um þetta var tilkynnt nú í morgun, tæpum sólarhring eftir að um helmingur flugmanna SAS lagði niður störf.

Í tilkynningunni segir að fordæmi séu fyrir því að alþjóðleg flugfélög nýti sér bandarísku leiðina til að ráðast í fjárhagslega endurskipulagningu en stjórnendur SAS kynntu fyrr á árinu áform lækkun rekstrarkostnaður um nærri 100 milljarða króna á ári. Einnig er lagt upp með að kröfuhafar breyti stærstum hluta skulda í hlutafé og tvær stærstu kröfuhafarnir, sænska og danska ríkið, hafa gefið samþykki sitt fyrir því.

Þegar þessari fjárhaglegu endurskipulagningu er lokið er ætlunin að efna til hlutafjárútboðs þar sem safna á að lágmarki 124 milljarða króna.

Sjóðir SAS tæmast hratt þessa dagana að mati sérfræðinga og sérstaklega nú þegar félagið þarf að aflýsa stórum hluta brottfarar vegna verkfalls flugmanna. Af þeim sökum eru stjórnendur SAS nú í viðræðum við lánastofnanir um fjármögnun til að koma félaginu í gegnum bandaríska greiðslustöðvunarferlið. Samkvæmt tilkynningu er þar stefnt að lántöku upp á 7,2 milljarða sænskra króna en sú upphæð jafngildir um 94 milljörðum íslenskra króna.

Danska og sænska ríkið eru í dag stærstu hluthafar SAS með um 22 prósent hlut hvort um sig. Danska ríkisstjórnin hefur gefið út að þar sé vilji til að taka þátt í hlutafjárútboði en Svíar ætla ekki að setja meira fé í rekstur þessa stærsta flugfélags Norðurlanda.