Segja samninga ekki í höfn

„Við höfum náð samkomulagi og nú er bara að fá síðustu undirskriftirnar,“ sagði Carsten Dilling, stjórnarformaður SAS, í samtali við sænska viðskiptablaðið Dagens Industri nú í kvöld.

Formaður félags norska flugmanna staðfesti líka samkomulag við norska fjölmiðla og sagði niðurstöðuna sorglega því nýi kjarasamningurinn feli í sér verri kjör að öllu leyti. „Það mikilvægasta er þó að fá flugvélarnar í loftið á ný,“ bætti formaðurinn við.

Þar með var útlit fyrir að tveggja vikna löngu verkfalli flugmanna félagsins lokið en stuttu síðar gaf SAS út tilkynningu þar sem segir að viðræður standi ennþá yfir við stéttarfélög flugmanna, ekkert samkomulag hafi verið undirritað.