Sjálfbærni er nýja leiðarljósið

Mikilvægasta umræðan í ferðaheiminum snýst um það hvernig starfsgreinin fær staðist vaxandi umhverfisvitund og kröfuna um sjálfbærni.

Return í Reynisfjöru
Rútur í Reynisfjöru. Hversu lengi sættir ferðafólk sig við rútur sem knúnar eru jarðefnaeldsneyti? Mynd: Óðinn Jónsson

Þar sem rætt er og skrifað um ferðaþjónustu og framtíð hennar í heiminum er sjálfbærni ævinlega efst á blaði. Augljóst er að íslensk ferðaþjónusta þarf að taka sig á, eins og fram kom í viðtali Túrista við Skarphéðin Berg Steinarsson, ferðamálastjóra. Hann segir íslenska ferðaþjónustu hafa dregist aftur úr, ekki hafi verið lögð nógu rík áhersla á umhverfismálin. Íslensk ferðaþjónusta verði að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. 

Ferðaþjónustufyrirtæki um allan heim setja nú sjálfbærni á oddinn – af því að ferðafólkið sjálft gerir það í vaxandi mæli. Sífellt fleiri túristar eru reiðubúnir að kaupa ferðir og þjónustu sem staðfest er að lúti reglum sem gilda um það sem telst sjálfbært. Sérstaklega á þetta við um túrista sem öll lönd vilja laða til sín: fólkið sem er tilbúið að greiða vel fyrir vandaða og umhverfisvænar vörur og þjónustu.

Þessi þróun endurspeglar algjöra hugarfarsbreytingu neytenda sem frömuðir og fyrirtæki í ferðabransanum geta nýtt sem hvata til frekari og róttækari breytinga á greininni. 

Geta Íslendingar lengi enn selt ökuferðir um hringveginn, upp á jökla eða út á sjó, á farartækjum sem brenna jarðefnaeldsneyti?

Bandaríski ferðafjölmiðillinn Skift stóð að ráðstefnu um sjálfbærnimál og birtir myndband á síðu sinni þar sem Jennifer Andre frá Expedia Group ræðir niðurstöður rannsókna fyrrtækisins á viðbrögðum ferðamanna gagnvart sjálfbærni og hvað móti viðhorf þeirra:

Ferðamenn leita stöðugt eftir kostum sem teljast sjálfbærir, t.d. með því að styðja við efnahagslega hagsæld og menningu nærsvæðis, heimsækja fáfarna og lítt þekkta staði – meðfram því að vera almennt uppteknir af umhverfismálum. 

Ferðamenn eru til í að borga meira fyrir sjálfbær matvæli, samgöngur, gistingu og afþreyingu – og eru jafnvel fúsir að fórna þægindum ef þeim bjóðast sjálfbærir og skynsamlegir kostir.

Ferðamenn skortir réttar upplýsingar um það hvernig hafa megi sjálfbærni að leiðarljósi. Þarna vantar meiri trúverðugleika og gagnsæi í miðri upplýsingaóreiðunni. 

Það er ekki nóg að segjast vera sjálfbær eða umhverfisvænn. Sýna verður fram á það með trúverðugum hætti.