Vantar skýrari heimild til lokana

Verk­efna­stjórn um örygg­i ferðafólks sem ráð­herra ferða­mála skip­aði í ársbyrjun hefur skilað skýrslu. Þar kemur fram að skýrari lagaheimilda er þörf til að tryggja öryggi þess.

Úr Reynisfjöru Óðinn Jónsson

Mikið hefur verið rætt að undanförnu um öryggi ferðafólks, sérstaklega í framhaldi af slysum í Reynisfjöru. Fundur var haldinn í Vík, þar sem fulltrúar stjórnvalda, viðbragðsaðila og heimamanna fóru yfir þau mál og ræddu til hvaða aðgerða mætti grípa.

Af nýrri skýrslu verkefnastjórnar ferðamálaráðherra að dæma þá skortir skýrari lagaheimildir til að loka fjörunni fyrir ferðafólki ef því er talin stafa hætta af öldugangi. Skýrrar og ótvíræðrar lagaheimildar er þörf, segir í skýrslunni.

Leggur verkefnastjórnin til að kannaðir verði kostir og möguleikar þess „að innleiða sambærileg lög um öryggi á fjölförnum ferðamannastöðum og nú þegar gilda um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Verður að telja að sterk rök hnígi til þess að efla varnir og öryggi á þessu sviði með hliðsjón af núverandi öryggisþörf og tíðni slysa.“

Þá vill verkefnastjórnin að sett verði reglugerð á grundvelli nýrra laga þar sem áhættusvæði verði nánar skilgreind og áhætta metin reglulega.

Nú er hvergi í lögum að finna laga- eða reglugerðarákvæði þar sem sértæk öryggisviðmið vegna hættu á fjölsóttum ferðamannastöðum eru skilgreind. Fyrr en úr því verður bætt geta opinberir aðilar illa brugðist við.

Þú færð aðgang að öllu efni Túrista næstu tvo mánuði fyrir 2.000 kr. Notaðu afsláttarkóðann SUMAR2022 hér. Áskrift endurnýjast á fullu verði í framhaldinu en alltaf hægt að segja upp.