Verkfall hafið

Áætlunarflug SAS hingað til lands frá Noregi mun líklegast stöðvast en öðru máli gegnir um flugið frá Kaupmannahöfn.

Mynd: Swedavia

Aflýsa þarf um helmingi allra flugferða SAS frá og með deginum í dag vegna verkfalls flugmanna sem hófst nú í hádeginu að skandinavískum tíma. Þær flugferðir sem eru á vegum dótturfélaga SAS verða með óbreyttum hætti enn sem komið er en kjaradeilan snýst einmitt um starfsemi þessara nýju dótturfélaga.

Stjórnendur SAS vilja færa flugreksturinn að öllu leyti úr móðurfélaginu sjálfu og þar með ráðningasamninga flugmanna. Þetta vilja stéttarfélög flugmanna í Noregi, Svíþjóð og Danmörku ekki sætta sig við og boðuðu því til verkfalls frá og með miðvikudeginum í síðustu viku. Fresturinn var svo framlengdur til dagsins í dag en nú er ljóst að viðræðurnar skiluðu ekki árangri.

Í tilkynningu frá SAS segir að þessar aðgerðir muni hafa áhrif á ferðir um þrjátíu þúsund farþega á degi hverjum. Anko van der Werff, forstjóri SAS, segir verkfallið líka stefna í hættu um átta þúsund störfum enda sé fjárhagsstaða flugfélagsins erfið eins og áður hefur verið rakið.

SAS flýgur daglega til Keflavíkurflugvallar frá bæði Ósló og Kaupmannahöfn en ferðirnar frá þeirri fyrrnefndu mun líklega falla niður ef verkfallið heldur áfram samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu SAS. Íslandsflug félagsins frá Kaupmannahöfn verður aftur á móti á áætlun því þær ferðir heyra undir dótturfélagið SAS Connect.

Flugmenn SAS lögðu líka niður vinnu vorið 2019 og þá varði verkfallið í eina viku og kostaði flugfélagið milljarða króna.