Verkfalli lokið en fyrstu ferð til Íslands aflýst

Um helmingur flugmanna SAS hefur verið í verkfalli frá því mánudaginn 4. júlí. Nú mæta þeir aftur til vinnu en verða að vinna meira en áður.

„Við erum að sjálfsögðu ánægð með að hafa náð samkomulagi. Það eru frábærar fréttir og sérstaklega fyrir viðskiptavinina," sagði Anko van der Werff, forstjóri SAS, þegar nýr samningur við flugmenn var í höfn í nótt. Mynd: SAS

Samningar tókust í kjaradeilu flugmanna og SAS í nótt en í gærkvöld bárust misvísandi upplýsingar um stöðu mála. Stjórnarformaður flugfélagsins og formaður norskra flugmannasamtaka staðfestu þá að samkomulag væri í höfn en í tilkynningu frá SAS var áréttað að nýr samningur væri ekki undirritaður ennþá.

Tveggja vikna löngu verkfalli lauk hins vegar formlega nokkrum klukkutímum síðar því klukkan rúmlega þrjú í nótt, að skandinavísku tíma, skrifuðu stjórnendur SAS og formenn stéttarfélaga flugmanna undir nýjan kjarasamning sem gildir til næstu fimm ára.

Hátt í níu hundruð flugmenn snúa því aftur til starfa í dag og flestar ferðir SAS eru á áætlun. Ferð félagsins til Keflavíkurflugvallar frá Ósló hefur þó verið aflýst en þota SAS mun fljúga hingað frá Kaupmannahöfn síðar í dag.

Í tilkynningu frá flugmannasamtökunum SAS Pilot Group segir að með nýja samningnum sé tryggt að þeir 450 flugmenn sem ennþá eru atvinnulausir eftir heimsfaraldurinn fái vinnu á nýjan leik. Einnig felur samkomulagið í sér að nýr kjarasamningur mun gilda fyrir þá flugmenn sem ráðnir eru til dótturfélaga SAS, SAS Connect og SAS Link. Þessi tvö undirfélög hafa verið kjarni deilu stjórnenda SAS og flugmanna því ætlunin er að flytja allan flugrekstur úr móðurfélaginu yfir í þessu tvö félög og um leið skerða kjör flugmanna, meðal annars með aukinni vinnuskyldu.

Og í tilkynningu sem stjórnendur SAS sendu frá sér í nótt er staðfest að flugmenn þurfi nú að vinna meira en áður og eins verða ráðningasamningar aðlagaðir að árstíðarsveiflum í rekstrinum. Með þessu lækkar einingakostnaður sem rakinn er til flugmanna að því segir í tilkynningu.

Þrátt fyrir að samningur liggi nú fyrir við flugmenn þá má segja að lífróður SAS haldi áfram. Félagið hefur nefnilega óskað eftir svokallaðri gjaldþrotavernd fyrir dómstólum í New York í Bandaríkjunum. Tilgangurinn með því er að draga úr skuldum félagsins og þá helst með því að fá kröfuhafa til að breyta skuldum í hlutafé.

Verkfallið hefur líka leikið fjárhag SAS grátt en talið er að félagið hafi tapað á bilinu 100 til 130 milljónum sænskra króna á dag á meðan á vinnustöðvuninni stóð. Það jafngildir að lágmarki um tuttugu milljörðum íslenskra króna á þessu tveggja vikna tímabili.