Vonast til að verkfalli ljúki í dag

Áfram er fundað í vinnudeilunni hjá SAS.

SAS í Asíuflugi

Nú í morgunsárið hófust samningaviðræður milli flugmanna SAS og stjórnenda flugfélagsins á ný en tvær vikur liðnar frá því að um helmingur flugmanna félagsins fór í verkfall. Af þeim sökum hefur stórum hluta ferða félagsins verið aflýst, þar af sextán brottförum frá Keflavíkurflugvelli. Talið er að verkfallið kosti SAS um hátt í tvo milljarða króna á dag.

„Vonir standa til að samkomulag náist í dag. Við sitjum þangað til það er í höfn og vonandi gerist það í dag,“ sagði Martin Lindgren við blaðamenn í morgun en hann fer fyrir stéttarfélagi flugmanna í Svíþjóð.

Og sænski sáttasemjarinn Claes Stråth var líka bjartsýnn í byrjun fundar og benti á að nú þegar hefði náðst samkomulag um stóran hluta af þeim 25 atriðum sem deilt væri um.

Megin ágreiningurinn í vinnudeilunni snýst um áform stjórnenda SAS um uppstokkun á flugrekstri félagsins. Ætlunin er að flytja þann hluta starfseminnar í ný dótturfélög og þar með alla ráðningasamninga við áhafnir. Á sama tíma er gerð krafa um að flugmenn vinni meira en áður fyrir sömu laun.

Formaður stéttarfélags norska flugmanna, Roger Klokset, segir í samtali við Dagens Nærlingsliv í dag að flugmenn séu í furðulegri stöðu.

„Þetta er í raun eins og nágranninn hafi stolið húsinu þínu og krefji þig um háa greiðslu fyrir að fá lyklana aftur. Á sama tíma logar hús nágrannans og þú verður að hjálpa honum að slökkva eldinn,“ útskýrir Klokset og vísar til þess að daginn eftir að flugmenn fóru í verkfall þá óskuðu stjórnendur SAS eftir gjaldþrotavernd fyrir bandarískum dómstólum.

Sú aðgerð er hluti af áætlun forráðamanna SAS að ná fram verulegum afskriftum á skuldum félagsins og þá helst hjá flugvélaleigum. Danska, sænska og norska ríkið hafa gefið vilyrði sitt fyrir því að breyta skuldum í hlutafé en ríkissjóðir landanna þriggja eru meðal helstu lánadrottna. Ríkissjóðir Danmerkur og Svíþjóðar eru jafnframt stærstu hluthafarnir með samtals 44 prósent hlut.