„Vonbrigði að ráðherra standi ekki með greininni“

Samtök ferðaþjónustunnar lýsa mikilli óánægju með að Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, styðji hvalveiðar.

Langreyður komin á land í Hvalfirði Mynd: Óðinn Jónsson

„Það eru satt að segja mikil vonbrigði að ferðamálaráðherra skuli vera fylgjandi hvalveiðum á sama tíma og atvinnugreinin sjálf, og reynslumikið fólk innan hennar, hafa varað við neikvæðum áhrifum hennar á ferðaþjónustu og ímynd Íslands sem ferðamannalands,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF þegar hún bregst við stuðningi ráðherra við hvalveiðar.

„Það eru mikil vonbrigði að ráðherra skuli ekki standa með atvinnugreininni á þessum tímum, þegar fyrirtækin eru að rísa úr öskustó eftir hörmungar heimsfaraldursins, og leyfa henni að njóta vafans.

Þetta er sömuleiðis illskiljanlegt, þar sem áralöng reynsla hefur sýnt okkur að hvalveiðar skaða utanríkisstefnu og utanríkisviðskipti Íslands – miklum hagsmunum er stefnt í hættu vegna veiða, sem hafa sáralítið, ef eitthvert vægi, í þjóðarbúskapnum.

Einnig skýtur þetta skökku við, þar sem atvinnugreinin ásamt ráðherra, er í miðjum klíðum við stefnumótun fyrir atvinnugreinina til framtíðar, sem ber heitið „Leiðandi í sjálfbærni.“

Það sjá allir að hvalveiðar sem stundaðar eru í  andstöðu við stóran hluta Íslendinga og heimsbyggðarinnar passa með engu móti inn í þá framtíðarsýn sem þar er dregin upp af áfangastaðnum Íslandi, “ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, sem hefur áður lýst andstöðu við hvalveiðar sem hafnar eru að nýju. Og sama gildir um aðra þá í ferðaþjónustu sem Túristi ræðir við þessa dagana:

Allir virðast andvígir hvalveiðum og segja þær ganga þvert á hagsmuni ferðaþjónustunnar. Afstaða ferðamálaráðherra vekur því mikla undrun innan greinarinnar.