32 flugferðir til Tenerife fyrir jólin

Það verða sæti fyrir ríflega fimm þúsund farþega í flugferðunum héðan til spænsku eyjunnar dagana fyrir jólahátíðina.

Flugstöðin á suðurhluta Tenerife. MYND: AENA

Íslenskir farþegar vega sífellt þyngra í rekstri Icelandair enda hafa umsvif félagsins í flugi til sólarlanda aukist verulega eftir heimsfaraldur. Til marks um breytinguna þá voru tengifarþegar, þeir sem aðeins millilenda á Keflavíkurflugvelli, ríflega helmingur allra þeirra sem nýttu sér ferðir Icelandair á öðrum fjórðungi ársins 2017 en það var þá sem Icelandair skilaði síðast hagnaði. Á öðrum fjórðungi þessa árs var hlutfall tengifarþega rétt 36 prósent.

Staða heimsfaraldursins og sóttvarnaraðgerðir vestanhafs hafa örugglega haft sitt að segja hvað þetta lækkandi hlutfall varðar en ljóst er að stjórnendur Icelandair ætla sér mun stærri hlut á íslenska markaðnum en gert var á árunum sem félagið var rekið með hagnaði.

Þá var Tenerife aldrei hluti af leiðakerfi félagsins en núna fljúga þotur Icelandair þangað nokkrar ferðir í viku. Og fyrir jólin býður félagið upp á allt að þrjár brottfarir á dag til spænsku eyjunnar. Samtals verða ferðir Icelandair til Tenerife 20 talsins dagana 13. til 23. desember. Til samanburðar voru brottfarirnar eingöngu þrjár fyrir jólin 2016 og 2017 og þá var salan á sætunum á vegum ferðaskrifstofa.

Líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá hefur Tenerife verið mjólkurkýr íslensku flugfélaganna síðustu misseri og Play gerir ráð fyrir sex ferðum þangað fyrir jólin eins og sjá má hér fyrir neðan. Forstjóri Play hefur áður gefið út að félagið ætli sér að verða það stærsta í flugi milli Íslands og Spánar.

Til viðbótar við flugfélögin tvö þá býður Ferðaskrifstofa Íslands, sem rekur m.a. Heimsferðir og Úrval-Útsýn, upp á fjórar ferðir til Tenerife fyrir jólin og Niceair ætlar tvær ferðir frá Akureyri.

Í heildina verða ferðirnar 32 talsins og þar af 20 á vegum Icelandair og systurfélagsins Vita.