Aflýsa um 1700 flugferðum í haust og þar af 22 til og frá Íslandi

Það er á brattan að sækja hjá SAS þessi misserin.

Mynd: Swedavia

Í júlí fór helmingur flugmanna SAS í fimmtán daga verkfall og skiljanlega þurfti að fella niður fjölda flugferða á tímabilinu. Áhrifa verkfallsins gætir þó ennþá því félagið hefur aflýst um 1200 flugferðum í september og öðrum 500 í október.

Skýringin liggur meðal annars í skorti á starfsfólki eða öllu heldur ónýttu orlofi. Það stefnir nefnilega í að óvenju hátt hlutfall starfsmanna SAS verði í fríi nú í haust þar sem fólk gat ekki tekið út allt fríið í sumar á meðan flugmennirnir lögðu niður viður. Af þeim sökum þarf að draga úr framboði.

Talsmaður SAS segir í svari til danska flugritsins Checkin að lengri bið eftir nýjum flugvélum hafi líka neikvæð áhrif á flugáætlunina. Minni eftirspurn sé síður en svo skýringin á þessum breytingum.

Íslandsflug SAS verður vegna ástandsins takmarkaðra en áður var lagt upp með. Ferðunum hingað til og frá Kaupmannahöfn fækkar um tólf í september og samtals verða tíu flug milli Óslóar og Keflavíkurflugvallar felld niður samkvæmt samantekt Aeroroutes.