Diljá ráðin hagfræðingur SAF

Diljá Matthíasardóttir er ný hagfræðingur SAF. MYND: SAF

Samtök ferðaþjónustunnar hafa ráðið Diljá Matthíasardóttur í starf hagfræðings samtakanna. Hún hefur þegar hafið störf að því segir í tilkynningu.

Diljá hefur lokið BS.c. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og er auk þess með meistaragráðu í hagfræði frá Barcelona School of Economics með áherslu á þjóðhagfræði og fjármálamarkaði.

Diljá starfaði áður sem hagfræðingur á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands og sem sérfræðingur í eignastýringu fagfjárfesta hjá Arion banka. Þá starfaði hún einnig við dæmatímakennslu við hagfræðideild Háskóla Íslands. Diljá er stjórnarmeðlimur og ein stofnenda HKH – Hagsmunafélags kvenna í hagfræði.

„Við erum mjög ánægð með að hafa fengið Diljá til liðs við Samtök ferðaþjónustunnar. Diljá bætist við öflugan hóp starfsmanna samtakanna og væntum við mikils af hennar störfum enda spennandi og krefjandi tímar framundan í ferðaþjónustu,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF.

Samtök ferðaþjónustunnar eru heildarsamtök fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi. Samtökin eru stofnuð árið 1998 og eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Um 400 fyrirtæki í ferðaþjónustu um land allt eru aðilar að SAF.