Ein ferð í stað tveggja til Genfar

Þeir sem ætla á skíði í Ölpunum í vetur geta nú flogið beint til Genfar. Mynd: Ferðamálaráð Sviss

Þotur Icelandair fljúga reglulega til Genf í Sviss en þó aðeins frá vori og fram á haust. Yfir vetrarmánuðina liggja ferðirnar niðri en frá og með byrjun næsta árs mun Play bjóða upp á reglulegar ferðir til borgarinnar. Þó ekki eins oft og lagt var upp með því eingöngu verður flogið á laugardögum. Fyrri áætlun gerði ráð fyrir brottförum á miðvikudögum og sunnudögum.

Spurður um ástæður þessara breytinga þá segir Birgir Olgeirsson, blaðafulltrúi Play, að Genf sé einn vinsælasti flugvöllur í Evrópu fyrir skíðaferðir og þar sé sérstaklega erfitt að fá lendingarleyfi á flugvellinum á laugardögum. Play hafi hins vegar núna fengið leyfi þann dag og því hafi áætluninni verið breytt með þessum hætti.

Fyrsta ferð Play til Genf er á dagskrá 21. janúar og sú síðasta í lok mars. Stuttu síðar tekur Icelandair svo upp þráðinn á ný í ferðum sínum til borgarinnar en þá er skíðatímabilið í Ölpunum á enda.