Fá risalán á dráttarvöxtum

Stjórnendur SAS bíða nú eftir úrskurði bandarískra dómstóla varðandi beiðni félagsins um gjaldþrotavernd. Mynd: Andy Prhat

Daginn eftir að um helmingur flugmanna SAS fór í verkfall í byrjun júlí þá sendu stjórnendur SAS beiðni til dómstóla í New York þar sem óskað var eftir gjaldþrotavernd eða það sem kallað er Chapter-11 vestanhafs. Um er að ræða einskonar skjól fyrir fyrirtæki til að ráðast í fjárhagslega endurskipulagningu án þess þó kröfuhafar geti farið fram á gjaldþrot.

Til að koma sér í gegnum þetta ferli þá þarf SAS að tryggja sér sérstaka fjármögnun og nú er hún í húsi því bandaríska fjárfestingafélagið Apollo Global Management ætlar að lána skandinavíska flugfélaginu allt að 700 milljónir dollara samkvæmt tilkynningu sem send var út um helgina. Upphæðin jafngildir um 96 milljörðum íslenskra króna.

Helmingur fjárhæðarinnar verður lagður inn á SAS um leið og bandarískir dómstólar veita flugfélaginu heimild til að nýta sér úrræði Chapter-11 leiðarinnar. En von er á úrskurði um miðjan næsta mánuð. Hinn helminginn fær SAS eftir að önnur skilyrði lánasamningsins hafa verið uppfyllt.

Lán sem þetta er dýrt að taka því í heildina þarf SAS að borga að minnsta kosti rúmlega 11 prósent vexti en þeir geta orðið ennþá hærri ef félagið þarf að framlengja greiðslufrestinn. Til samanburðar eru dráttarvextir hér á landi 12,5 prósent.

Sem veð fær Apollo veð í lendingarleyfum SAS, eignum félagsins, hlutabréfum í dótturfélögum og fleira. Auk þess fær lánveitandinn forgang á kaupum á nýju hlutafé í flugfélaginu en það mun þó vera mjög sjaldgæft að lán sem veitt eru í tengslum við Chapter-11 ferlið séu ekki endurgreidd að fullu samkvæmt frétt Dagens Næringsliv.

Í blaðinu er jafnframt haft eftir dönskum sérfræðingi að þessi samningur sé mikilvægt skref fyrir SAS en lánakjörin sýni vel hversu dýrt það sé að vera fátækur.