Farmiði greiddur fyrir flugtak

Þau sem lenda í því að flugi er aflýst vita að nokkur fyrirhöfn getur fylgt því að fá miðann endurgreiddan. Á þessu sumri hafa óvenju margir lent í vandræðum vegna aflýstra ferða, ekki síst í Evrópu, og hafa þau vandræði oftast verið rakin til starfsmannaskorts á flugvöllum.

Samgönguráðherra þýska sambandsríkisins Neðra-Saxlands, Bernd Althusmann, vill að komið verði til móts við neytendur með því að fella niður kröfuna um fyrirframgreiðslu flugmiða en farþegar greiði fargjald sitt um leið og gefið út brottfararspjald fyrir flug. Althusmann sagði við viðskiptablaðið Handelsblatt að þetta myndi aðeins lítillega auka tilkostnað flugfélaganna en hlífa farþegum við miklu umstangi og leiðindum. Frá þessu er greint í Business Travel News Europe.

Málið verður rætt í fylkisstjórn Neðra Saxlands fljótlega. Þýsk samtök viðskiptaferðalanga hafa frá því í fyrra beitt sér fyrir því að fyrirkomulag greiðslu fyrir flugtak (PAYF, Pay as you fly) verði tekið upp og fagnaði forseti samtakanna, Christoph Carnier, stuðningi samgönguráðherra Neðra-Saxlands. Fyrirfram greiðsla flugmiða væri úrelt fyrirkomulag sem ætti að falla frá og taka í staðinn upp rafræna greiðslu fyrir flugtak. Það væri ekki aðeins í þágu viðskiptavina heldur yrði til hvati fyrir flugfélögin að hverfa frá núverandi skriffinsku sem fylgir aflýstum ferðabókunum og millifærslum á greiðslum.

Lufthansa hóf í mars í fyrra að bjóða viðskiptaferðalöngum upp á greiðslu fyrir flugtak. Þeir miðar eru dýrari en aðrir og bókunarferlið öðruvísi en gildir um flesta miða.