Farþegafjöldi Icelandair yfir hálfa milljón í júlí

Icelandair fluttu 529 þúsund farþega í innanlands- og utanlandsflugi í júlímánuði. Þessi farþegafjöldi er 89 prósent af því sem hann var í sama mánuði 2019. Sætanýtingin hefur aldrei verið betri, segir í tilkynningu frá Icelandair.

Upplýsingar um farþegaflutninga Icelandair í júlí er að finna í flutningatölum sem birtar voru í Kauphöllinni í morgun. „Nú náðum við þeim áfanga að flytja yfir hálfa milljón farþega í fyrsta sinn frá því í ágúst 2019 og er farþegafjöldinn kominn upp í hátt í 90% af því sem var fyrir faraldur, “ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Millilandafarþegar í júlí voru 504 þúsund í júlí í samanburði við 195 þúsund í fyrra. Í júnímánuði voru 407 þúsund farþegar í millilandaflugi.

Fjöldi farþega til Íslands var 230 þúsund og frá Íslandi 57 þúsund. Tengifarþegar voru 217 þúsund, sem er um 43% af heildarfjölda millilandafarþega. Töluverðar raskanir urðu á flugi vegna aðstæðna á flugvöllum víða og birtist það í því að stundvísi mælist 64%. Sætanýtingin í millilandafluginu var 89,6 prósent.

Í innanlandsflugi var farþegafjöldinn 25 þúsund, þúsund fleiri en í sama mánuði í fyrra. samanborið við 24 þúsund í júlí 2021. Sætanýting í innanlandsflugi var 74,5 prósent. Fraktflutningar minnkuðu um 14 prósent miðað við júlí í fyrra.

Forstjóri Icelandair hrósar ferðaþjónustunni í landinu fyrir mikinn sveigjanleika „með því að stórauka starfsemi sína á stuttum tíma og náð þannig að þjónusta sambærilegan fjölda ferðamanna og árið 2019. Með þessu samheldna átaki auk aðgerða ríkisstjórnarinnar í heimsfaraldrinum hefur verið unnt að endurreisa ferðaþjónustu á Íslandi með miklum glæsibrag.“