Flugfélögin sem aflýstu flestum ferðum á Keflavíkurflugvelli í júlí

Um tveimur af hverjum hundrað áætlunarferðum til og frá Keflavíkurflugvelli var aflýst í júlí.

Ferðaplön ófárra farþega á Keflavíkurflugvelli hafa riðlast í júlí vegna breytinga á flugáætlunum. Mynd: Isavia

Um helmingur flugmanna SAS fór í verkfall þann 4. júlí og samningar náðust ekki fyrr en tveimur vikum síðar. Á þessu tímabili þurfti þetta stærsta flugfélag Norðurlanda að fella niður stóran hluta af ferðum sínum og þar af 44 til og frá Keflavíkurflugvelli. Það jafngilti 36 prósent af Íslandsflugi SAS í júlí.

Ekkert annað flugfélag aflýsti jafn mörgum áætlunarferðum héðan í júlí en hlutfallslega var Air Greenland stórtækara því félagið felldi niður aðra hverja ferð til Íslands í júlí.

Hjá Icelandair var 0,8 prósent af ferðunum aflýst sem er töluverð framför frá því júní þegar hlutfallið var rúmlega tvöfalt hærra. Þá felldi Icelandair niður 62 ferðir með stuttum fyrirvara en núna nam földinn 25 komum og brottförum.

Play felldi aðeins niður tvær ferðir eða 0,3 prósent af upphaflegri áætlun. Hjá Wizz Air var hlutfallið nærri 4 prósent og 8 prósent hjá Transavia.

Í heildina var 113 áætlunarferðum til og frá Keflavíkurflugvelli aflýst með stuttum fyrirvara í júlí samkvæmt talningu Túrista eða um tveimur prósentum af þeim ferðum sem voru á dagskrá. Í flestum tilfellum ættu farþegar að eiga rétt á bótum þar sem ferðirnar voru felldar niður með minna en tveggja vikna fyrirvara. Þetta á líka við um flug sem aflýst var vegna verkfalla en líkt og Neytendasamtökin hafa bent á þá dugar farþegum að leita beint til flugfélaga eftir þessum skaðabótum í stað þess að setja málið í hendur fyrirtækja sem sérhæfa sig í slíku. Þóknun þeirra getur nefnilega numið um fjórðungi af þeirri fjárhæð sem farþegarnir eiga rétt á.