Flugu um sextán hundruð farþegum milli Akureyrar og Tenerife

Nú eru í boði reglulegar ferðir til Tenerife frá Akureyri. Framkvæmdastjóri Niceair segist ekki ætla að keppa við fargjöld keppinautanna sem gera út frá Keflavík.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair. MYND: ÓÐINN JÓNSSON

Hið norðlenska Niceair hóf starfsemi í byrjun júní og flýgur nú vikulega til spænsku eyjunnar Tenerife. Í júní nýttu tæplega sjö hundruð farþegar sé þessar ferðir og í júlí voru þeir rúmlega níu hundruð samkvæmt tölum frá spænskum flugmálayfirvöldum. Hafa ber í huga að hver farþegi er talinn bæði þegar hann lendir á Tenerife og aftur á heimleiðinni.

Í flugvél Niceair eru 150 sæti en ekki er hægt að selja þau öll í ferðunum til Tenerife þar sem drægni þotunnar er ekki nægjanleg til að fljúga fullfermi alla leiðina frá höfuðstað Norðurlands og til flugvallarins við suðurströnd spænsku eyjunnar. Tuttugu sætum er því haldið auðum og miðað við fyrrnefndan farþegafjölda þá var sætanýtingin í ferðum Niceair til Tenerife 88 prósent í júlí.

„Það er ljóst að við þurfum að hafa góða sætanýtingu á viðunandi verði til að þetta borgi sig. Þetta var mjög gott í júlí með viðunandi afkomu, júní í járnum og haustið lítur vel út, sérstaklega september og október. Þá er desember nánast uppseldur þannig að þetta lítur allt í lagi út. Sætiskostnaður verður alltaf hærri með þetta fá sæti. Það segir sig líka sjálft, en Norðlendingar meta réttilega til fjár að sleppa við tveggja sólarhringa ferðalag um Keflavíkurflugvöll með tilheyrandi kostnaði. Við reynum aldrei að verðleggja okkur með lægsta verðið,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Niceair, spurður út í stöðuna.

Hann bætir því við að ákjósanlegra væri að fljúga styttri flugleiðir með lægri framleiðslukostnaði en ekki sé hægt að deila við markaðinn. Vísar framkvæmdastjórinn þar til mikils áhuga Íslendinga á ferðum til Tenerife.

Upphaflega var ætlun Niceair að fljúga reglulega til London í sumar en ekki fékkst leyfi breskra flugmálayfirvalda líkt og Þorvaldur Lúðvík fór yfir í ítarlegu viðtali við Túrista fyrr í sumar. Aðspurður um stöðuna á Bretlandsfluginu í dag þá segir hann að tilkynnt verði um framhaldið á því þegar það er tímabært.

Um 18 þúsund farþegar flugu til og frá Akureyri í júlí og þar af voru 900 Tenerifefarar.