Forsetinn og forsætisráðherra fyrstu farþegarnir

Matthías Sveinbjörnsson forseti Flugmálafélags Íslands og einn af stofnendum Rafmagnsflugs ehf. var flugmaður í dag og flaug með forseta og forsætisráðherra í sitt hvorri flugferðinni. MYND: ÞRÁINN KOLBEINSSON

Í dag voru mörkuð tímamót í flugsögu Íslands þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, voru fyrstu farþegar rafmagnsflugvélar á Íslandi í fyrstu tveimur farþegaflugunum. Viðburðurinn fór fram á Reykjavíkurflugvelli og þar voru stigin mikilvæg skref í orkuskiptum flugsamgangna að því fram kemur í fréttatilkynningu.

Flugvélin er tveggja sæta af gerðinni Pipistrel og er framleidd í Slóveníu. Hún er á stærð við þær vélar sem notaðar eru í flugkennslu hér á landi og er fyrsta rafdrifna flugvélin sem fær flughæfiskírteini á Íslandi.

„Ísland er í einstakri stöðu til þess að vera í fararbroddi í heiminum hvað varðar orkuskipti í flugi vegna stuttra flugleiða innanlands, góðs aðgengis að umhverfisvænni raforku, auk þess sem lega landsins milli Evrópu og Norður-Ameríku getur til framtíðar skapað margvísleg tækifæri þegar kemur að orkuskiptum í millilandaflugi. Fyrst um sinn er raunhæft að horfa til orkuskipta minni flugvéla og því næst í farþegaflugi innanlands,“ segir í tilkynningu.

Félagið Rafmagnsflug ehf. flutti rafmagnsflugvélina til landsins með það að markmiði að taka frumkvæði í orkuskiptum í flugi, þjálfa starfsfólk í þessari nýju tækni og kynna hana fyrir landsmönnum. Rafmagnsflug ehf. var stofnað af Matthíasi Sveinbjörnssyni og Friðriki Pálssyni í árslok 2021 en þeir hafa unnið að því síðastliðin þrjú ár að fá rafmagnsflugvélina til landsins.

Hún verður notuð í flugkennslu en auk þess er gert ráð fyrir að almenningur muni geta keypt sér útsýnisflug með þessari fyrstu rafmagnsflugvél á Íslandi og upplifað að ferðast um loftin blá á hreinni orku.