Samfélagsmiðlar

„Góð rúm voru útgangspunkturinn“

Á Sjávarborg í Stykkishólmi iðar allt af lífi um hábjargræðistímann í ferðaþjónustunni. Glaðlegir starfsmenn þjóna til borðs á kaffihúsinu á meðan aðrir skjótast á milli hæða og gera allt klárt fyrir næstu gesti. Það er komið undir hádegi þegar Túrista tekst að halda gestgjafanum, Sigríði Jóhannesdóttur, uppi á snakki yfir kaffisopa.

Sigríður Jóhannesdóttir, gestgjafi á Sjávarborg

Sigríður er á vaktinni eins og flesta daga en gefur sér svolitla stund til að ræða við Túrista um það hvernig er að reka gistiheimili og kaffihús í hjarta Stykkishólms. Síðustu næturgestir eru horfnir á vit nýrra ævintýra á Snæfellsnesi en kaffihúsið iðar af lífi. Hún tekur ekki af sér svuntuna. Eftir að Túristi hefur klárað úr súpuskál fáum við okkur kaffisopa og skoðum húsið sem heitir Sjávarborg og nú ber reksturinn sama nafn. 

Þau hjónin Sigríður og Skarphéðinn Steinarsson, ferðamálastjóri, eiga reksturinn en húsið að hluta með öðrum. Gistiheimilið var opnað 2013 undir öðru nafni en kaffihús 2018. Þá kom heimsfaraldurinn og spilin voru stokkuð upp: Úrbætur voru gerðar á sturtuklefum, eldhúsi, kaffihúsinu breytt og nýjar og afkastamiklar þvottavélar keyptar svo ekki þarf að kaupa þvott annars staðar – og nafnið Sjávarborg tekið upp. Þetta hafði verið hostel með móttöku við gamla skrifborð pabba Sigríðar. Nú tékka gestir sig inn og út við afgreiðsluborðið á kaffihúsinu.

Ilmandi súpa á Sjávarborg

Sjávarborg er eina hreinræktaða kaffihúsið í Stykkishólmi. Kaffið er gott og svo er boðið upp á heimilislegt meðlæti. „Það vantaði virkilega kaffihús í bæinn. Þetta er skemmtilegt. Hingað kemur fólk af öllu tagi. Miklu meira er að gera á kaffihúsinu en við áttum von á.”

Nostalgían ræður ríkjum á kaffihúsinu. Sjálft húsið var byggt 1914. Húsgögn, myndir og munir frá liðnum tímum, margt úr eigu formæðra og forfeðra eigendanna. Grái Ericsson-síminn er þarna og Nordmende-útvarpið, ofin veggmynd og klukkustrengir, gömul kaffikanna. Sérstaka athygli vekja gamlir gluggar sem nú eru notaðir til að kynna veitingar, hvað er í boði þann daginn, og samsettur tréstigi úr búi afa og ömmu Sigríðar, sem bjuggu á Reynimel í Reykjavík, hangir núna uppi á vegg í kaffihúsinu.  

Sigríður afgreiðir gesti

„Útgangspunkturinn var að hafa góð rúm. Þá kemur annað af sjálfu sér. Ég myndi ekki vilja reka gistihús með ónýtum rúmum. Sama er með kaffihúsið. Ég vil bjóða upp á gott kaffi og góðar veitingar. Annars myndi ég ekki nenna þessu,” segir Sigríður og sýpur á kaffinu.

Sjávarborg hefur opið í átta mánuði, lokað er frá nóvember og út febrúar – þó með þeirri undantekningu að hægt er að opna fyrir einstaka hópa.  Meðan þarna var hostel voru herbergin með óumbúnum rúmum en nú eru öll rúm uppbúin, 31 alls, misjafnlega mörg í hverju 10 herbergjanna. Eftir heimsfaraldur vildi fólk síður vera í herbergjum með öðrum og á Sjávarborg var brugðist við því. Herbergin eru fleiri, eitt fyrir hverja fjölskyldu, og svo eru sameiginlegar sturtur, baðherbergi, aðstaða til að elda og matast. Þetta þekkist víða um lönd.

„Ferðafólkið veit hvað það er að fá fyrir verðið sem það borgar. Sumir koma með allt með sér. Stundum er manni boðið í mat eða smakka. Góð stemmning myndast, spilað er á píanóið og gítarinn í setustofunni.” 

En veitingahúsin í kring freista líka gestanna á Sjávarborg. Sigríður segir að þau sem gisti hjá henni fari í vaxandi mæli út að borða á stöðunum í kring. Þarna fast við eru tveir úrvals veitingastaðir: Sjávarpakkhúsið og Narfeyrarstofa. Allt styður þetta hvað annað. Fólk sem áður festi borð á veitingahúsi með nokkrum kaffibollum fer nú frekar yfir götuna á kaffihúsið í Sjávarborg. Þá losnar borð á veitingahúsinu fyrir þá sem vilja matast. 

Við horfum út um glugga á efri hæðinni. Útsýnið er magnað.

Útsýni yfir höfnina úr einu herbergjanna

„Útlendingarnir eru mjög ánægðir með að sitja hér og fylgjast með sjómönnunum við höfnina.”

Sigríður segist sjálf hafa mjög gaman af vinnunni en nefnir sérstaklega hversu gott starfsfólk hún hafi.

„Þetta er besti hópur starfsfólks sem við höfum haft. Þau eru frá Ítalíu, Argentínu, Póllandi og Litáen. Þetta er elsta fólkið sem við höfum haft, öll yfir þrítugt. Ég held að þetta komi með aldrinum. Það er sama hvað þau gera – setja lak utan um dýnu, skera kökusneið eða þrífa klósett: Metnaðurinn er alltaf sá sami. Þau eru svo áhugasöm og ábyrgðarfull, væru ekki að hér ef þeim þætti vinnan leiðinleg. Svo þegar ítalskur eða spænskur hópur kemur geta þau talað við fólkið. Þau koma með svo margar hugmyndir. Þetta er svo skemmtilegt fólk.”

Migle og Ada á kaffihúsinu

Þau eru fimm í starfsmannahópnum og einn í hlutastarfi, auk Sigríðar, sem sinna daglegum rekstri gistiheimilisins og kaffihússins á Sjávarborg.

Ferðafólkið fór að láta sjá sig aftur í vor og snemma í sumar. Fullbókað var í júlí og ágúst en heldur minna er bókað í september. Á haustin er líka bókað með styttri fyrirvara en á sumrin.

Sigríður er bjartsýn á framtíð Stykkishólms sem ferðamannastaðar. Maturinn lokki marga en gera mætti meira í að kynna Breiðafjörð sem matarkistu.

Og Sjávarborg verður áfram á ferðakortinu

Nýtt efni

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …

Flugstöðin í Changi í Singapúr er ekki lengur í efsta sæti á árlegum lista Skytrax yfir bestu flugvellina heldur í öðru sæti. Hamad alþjóðaflugvöllurinn í Doha í Katar toppar nú listann sem birtur var í gær en hann byggir á einkunnagjöf farþega. Í þriðja sæti er Incheon í Seoul en í næstu tveimur sætum eru …

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …