Hætta við að taka upp þráðinn í Rússlandi

Það verður lengri bið eftir þotum Wizz Air til Moskvu. Mynd: Alexander Smagin / Unsplash

Hið ungverska Wizz Air hefur lengi verið umsvifamikið á Keflavíkurflugvelli en félagið hefur stækkað hratt síðustu misseri. Fyrir heimsfaraldur gerði félagið aðallega út frá flugvöllum í austurhluta Evrópu en núna hafa verið opnaðar starfsstöðvar í Austurríki, Ítalíu og Þýskalandi.

Áfram vegur þó Austur-Evrópu þyngst í rekstrinum og innrás Rússa í Úkraínu hafði því töluverð áhrif á félagið. Ennþá eru til að mynda nokkrar af þotum þess fastar í Úkraínu og eins var allt áætlunarflug til og frá Rússlandi lagt niður um leið og stríðið hófst.

Það vakti því mikla athygli þegar Wizz Air tilkynnti nýverið að nú í haust yrði þráðurinn tekinn upp í flugi til Rússlands. Þó eingöngu frá Abu Dhabi en starfsemin í furstadæminu er á vegum dótturfélags sem fjárfestingasjóður heimamanna á 51 prósent hlut í. Hið evrópska Wizz Air er því í minnihluta en engu að síður var gagnrýnin á þessi áform það mikil að nú hafa stjórnendur félagsins ákveðið að bíða ennþá lengur með Rússlandsflugið samkvæmt frétt Simply Flying.