Hleðslukerfið kortlagt

Hleðslustöð við Miklubraut í Reykjavík Mynd: ÓJ

Ein helsta hindrunin í vegi rafbílavæðingar er skortur á hleðslustöðvum, ekki síst meðfram þjóðvegum landsins. Nú hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið falið Íslenskri Nýorku að kanna notkun hleðslustöðva og reynslu notenda.

Markmiðið er að afla upplýsinga um notkun hleðslustöðva fyrir rafbíla og leiða í ljós hvort og hvar þörf er á sé fyrir frekari uppbyggingu. Svipuð könnun var fyrst gerð í fyrra en síðan hefur rafbílum fjölgað mikið og hleðslustöðvar eru komnar víðar. Kanna á upplifun notenda af hleðslustöðvum og bera saman við útkomuna í fyrra. Niðurstöður verða kynntar í lok nóvember 2022. Verkefnið er unnið í samstarfi við Orkusetur. 

Ferðafólk sem íhugar að taka rafbíl á leigu þarf fyrst að átta sig á því hvort það sé öruggt um að geta fengið hleðslu fyrir bílinn á þeim slóðum sem ráðgert er að ferðast um. Augljóslega vantar töluvert upp á þessa innviði víða um land. Jafnvel þar sem umferðin er mest – á höfuðborgarsvæðinu – geta þeir ökumenn sem ekki hafa heimahleðslu lent í vandræðum vegna þess hversu fáar og strjálar hleðslustöðvar fyrir almenning eru. En umrædd könnun ætti að leiða í ljós hver reynsla ökumanna er og hvar helst þarf að bæta úr. 

Þess má geta að í sumar setti Visit Iceland upp kort sem sýnir allar hleðslustöðvar sem ferðamenn geta haft aðgang að í gegnum gististaði, veitingastaði, söfn og aðra áningastaði á leið sinni.