Höfuðborg án samgöngumiðstöðvar

Líklega er óhætt að fullyrða að engin evrópsk höfuðborg eigi jafn dapurlega samgöngumiðstöð og Reykjavík. Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn segist vilja bæta úr á kjörtímabilinu.

Umferðamiðstöðin BSÍ Mynd: ÓJ

Umferðamiðstöðin, eða BSÍ, var glæsilegt mannvirki þegar hún var tekin í notkun árið 1965 og bætti til muna alla aðstöðu fyrir fólksflutningabíla og farþega sem komu til Reykjavíkur eða fóru þaðan. Áður hafði miðstöð farþegaflutninga verið við Kalkofnsveg og þar var jafnan þröng á þingi. Síðan eru liðin 57 ár og enn er BSÍ helsta tengimiðstöð fólksflutninga með bílum til og frá höfuðborginni. Eins og staðan er núna er varla að vænta byltingar á borð við þá sem varð 1965 á 60 ára afmælinu árið 2025. Hvað ætli flugfarþegar sem koma þá frá Keflavík til borgarinnar verði orðnir margir?

BSÍ-húsið sjálft er þreytulegt að utan en rúllur af pappa sem liggja uppi á þakinu benda til að einhverjar úrbætur á því séu framundan. Húsið sjálft, sem er í eigu Reykjavíkurborgar, þarnast gagngerra endurbóta og hefur gert lengi. Innanhúss er þó sómasamlegt um að litast – en þarna er bara alltof þröngt, aðstaða í biðsal er óboðleg. 

Þegar Túristi leit þarna við nú um verslunarmannahelgina voru tveir ungir, erlendir ferðamenn, í óðaönn að skrúfa sundur reiðhjól sín eftir vonandi góða ferð um landið og pakka þeim niður í kassa fyrir flugferð heim. Þeir bisuðu við þetta í anddyri hússins og á stéttinni fyrir utan. Þreytt fólk sat í öllum lausum stólum innandyra og reyndi að hvíla sig á meðan það beið eftir rútuferð. Fátt við að vera. Flestir væntanlega á leið til Keflavíkur. Fyrir utan þetta musteri hópferðasamgangna í höfuðborg Íslands eru þreytulegar, sprungnar stéttir og ómalbikuð holótt bílaplön. 

Svona er aðstaðan sem við bjóðum gestum okkar. Þetta er andlit Reykjavíkur eins og það birtist mörgu erlendu ferðafólki sem kemur á BSÍ með flugrútunni frá Keflavík. Skilar ferðaþjónustan virkilega ekki nógu miklum tekjum til samfélagsins til að réttlæta meiri myndarskap þegar kemur að móttöku og þjónustu við ferðafólk? 

Nú segja auðvitað einhverjir (pólitíkusar): Jú, nýja samgöngumiðstöðin er á dagskrá. Hún er á leiðinni. Það hefur verið á dagskrá stjórnmálanna í mjög langan tíma að gera úrbætur í samgöngumiðstöðvarmálum í Reykjavík en iðulega hafa blandast inn í þau mál deilur um innanlandsflugið, framtíð Reykjavíkurflugvallar, og líka spekúlasjónir um legu borgarlínu og hvar miðstöðvar við hana eiga að vera. Alltaf næg tilefni til að tefja úrbætur. 

Flettum upp í sáttmála. Í lok nóvember á síðasta ári tók við ríkisstjórn þriggja flokka sem gerðu með sér sáttmála. Þar segir: „Unnið verður að áframhaldandi uppbyggingu og fjármögnun hágæða almenningssamgangna og annarra samgöngumannvirkja á grundvelli samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.” Ríkisvaldið hefur viljað byggja upp samgöngumiðstöð í Vatnsmýri, sem þjóna myndi innanlandsflugi og hópferðaflutningum en lítið hefur gerst. Starfshópur á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins skilaði niðurstöðum 2018 og taldi áhugaverðasta kostinn þann að færa flugafgreiðslu á samgöngumiðstöð á BSÍ-reitnum. 

Hreyfing virtist loks komast á samgöngumiðstöðvarmálin þegar borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í desember 2018 að láta fara fram samkeppni um byggingu 5.000 – 6.500 fermetra samgöngumiðstöðvar á BSÍ-reitnum. Oddviti Sjálfstæðismanna lýsti því raunar að slík miðstöð ætti betur heima við Kringluna. Í október 2019 lagði starfshópur borgarinnar og Strætó bs. fram drög að keppnislýsingu sem unnin var með sérfræðingum verkfræðistofunnar Mannvits. 

Svo kom kórónaveiran – og sjálfsagt eitthvað fleira. 

Enn bíður BSÍ-reiturinn uppbyggingar og úrbóta. Lítið eða ekkert er gert til að hafa aðkomu sómasamlega – af því að alvöru uppbygging er handan við hornið. 

Er þá komið að næsta sáttmála, samstarfssáttmála meirihlutaflokkanna í borgarstjórn nú í sumarbyrjun. Þar segir: „Við viljum undirbúa Samgöngumiðstöð Reykjavíkur á Umferðarmiðstöðvarreit og vinna að því að græn samgöngutenging milli Reykjavíkur og Keflavíkur komist til framkvæmda.” 

Það er sannarlega ekki verið að lofa of miklu.