Samfélagsmiðlar

Höfuðborg án samgöngumiðstöðvar

Líklega er óhætt að fullyrða að engin evrópsk höfuðborg eigi jafn dapurlega samgöngumiðstöð og Reykjavík. Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn segist vilja bæta úr á kjörtímabilinu.

Umferðamiðstöðin BSÍ

Umferðamiðstöðin, eða BSÍ, var glæsilegt mannvirki þegar hún var tekin í notkun árið 1965 og bætti til muna alla aðstöðu fyrir fólksflutningabíla og farþega sem komu til Reykjavíkur eða fóru þaðan. Áður hafði miðstöð farþegaflutninga verið við Kalkofnsveg og þar var jafnan þröng á þingi. Síðan eru liðin 57 ár og enn er BSÍ helsta tengimiðstöð fólksflutninga með bílum til og frá höfuðborginni. Eins og staðan er núna er varla að vænta byltingar á borð við þá sem varð 1965 á 60 ára afmælinu árið 2025. Hvað ætli flugfarþegar sem koma þá frá Keflavík til borgarinnar verði orðnir margir?

BSÍ-húsið sjálft er þreytulegt að utan en rúllur af pappa sem liggja uppi á þakinu benda til að einhverjar úrbætur á því séu framundan. Húsið sjálft, sem er í eigu Reykjavíkurborgar, þarnast gagngerra endurbóta og hefur gert lengi. Innanhúss er þó sómasamlegt um að litast – en þarna er bara alltof þröngt, aðstaða í biðsal er óboðleg. 

Þegar Túristi leit þarna við nú um verslunarmannahelgina voru tveir ungir, erlendir ferðamenn, í óðaönn að skrúfa sundur reiðhjól sín eftir vonandi góða ferð um landið og pakka þeim niður í kassa fyrir flugferð heim. Þeir bisuðu við þetta í anddyri hússins og á stéttinni fyrir utan. Þreytt fólk sat í öllum lausum stólum innandyra og reyndi að hvíla sig á meðan það beið eftir rútuferð. Fátt við að vera. Flestir væntanlega á leið til Keflavíkur. Fyrir utan þetta musteri hópferðasamgangna í höfuðborg Íslands eru þreytulegar, sprungnar stéttir og ómalbikuð holótt bílaplön. 

Svona er aðstaðan sem við bjóðum gestum okkar. Þetta er andlit Reykjavíkur eins og það birtist mörgu erlendu ferðafólki sem kemur á BSÍ með flugrútunni frá Keflavík. Skilar ferðaþjónustan virkilega ekki nógu miklum tekjum til samfélagsins til að réttlæta meiri myndarskap þegar kemur að móttöku og þjónustu við ferðafólk? 

Nú segja auðvitað einhverjir (pólitíkusar): Jú, nýja samgöngumiðstöðin er á dagskrá. Hún er á leiðinni. Það hefur verið á dagskrá stjórnmálanna í mjög langan tíma að gera úrbætur í samgöngumiðstöðvarmálum í Reykjavík en iðulega hafa blandast inn í þau mál deilur um innanlandsflugið, framtíð Reykjavíkurflugvallar, og líka spekúlasjónir um legu borgarlínu og hvar miðstöðvar við hana eiga að vera. Alltaf næg tilefni til að tefja úrbætur. 

Flettum upp í sáttmála. Í lok nóvember á síðasta ári tók við ríkisstjórn þriggja flokka sem gerðu með sér sáttmála. Þar segir: „Unnið verður að áframhaldandi uppbyggingu og fjármögnun hágæða almenningssamgangna og annarra samgöngumannvirkja á grundvelli samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.” Ríkisvaldið hefur viljað byggja upp samgöngumiðstöð í Vatnsmýri, sem þjóna myndi innanlandsflugi og hópferðaflutningum en lítið hefur gerst. Starfshópur á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins skilaði niðurstöðum 2018 og taldi áhugaverðasta kostinn þann að færa flugafgreiðslu á samgöngumiðstöð á BSÍ-reitnum. 

Hreyfing virtist loks komast á samgöngumiðstöðvarmálin þegar borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í desember 2018 að láta fara fram samkeppni um byggingu 5.000 – 6.500 fermetra samgöngumiðstöðvar á BSÍ-reitnum. Oddviti Sjálfstæðismanna lýsti því raunar að slík miðstöð ætti betur heima við Kringluna. Í október 2019 lagði starfshópur borgarinnar og Strætó bs. fram drög að keppnislýsingu sem unnin var með sérfræðingum verkfræðistofunnar Mannvits. 

Svo kom kórónaveiran – og sjálfsagt eitthvað fleira. 

Enn bíður BSÍ-reiturinn uppbyggingar og úrbóta. Lítið eða ekkert er gert til að hafa aðkomu sómasamlega – af því að alvöru uppbygging er handan við hornið. 

Er þá komið að næsta sáttmála, samstarfssáttmála meirihlutaflokkanna í borgarstjórn nú í sumarbyrjun. Þar segir: „Við viljum undirbúa Samgöngumiðstöð Reykjavíkur á Umferðarmiðstöðvarreit og vinna að því að græn samgöngutenging milli Reykjavíkur og Keflavíkur komist til framkvæmda.” 

Það er sannarlega ekki verið að lofa of miklu. 

Nýtt efni

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …