Horfurnar í fluginu óljósar fyrir veturinn

Mögulega minni eftirspurn eftir styttri utanlandsferðum í vetur vegna efnahagsástandsins.

kaupmannahof farthegar
Farþegar á Kaupmannahafnarflugvelli MYND: CPH

Þrátt fyrir há fargjöld þá hefur eftirspurn eftir flugmiðum verið mikil í sumar. Tekjur af hverju sæti hafa því verið óvenjuháar eins og fram hefur komið í uppgjörum og eins í máli stjórnenda flugfélaga. Flugmiðarnir hafa einfaldlega selt sig sjálfir.

Það mun þó líklega reyna meira á markaðs- og sölufólk flugfélaganna á næstu misserum því horfurnar framundan eru ekki eins bjartar samkvæmt umfjöllun Financial Times í dag. Þar er sérstaklega vísað til versnandi ástands í hagkerfum heimsins. Þar með geti dregið úr þeirri uppsveiflu sem verið hefur í ferðageiranum að undanförnu.

Þá sérstaklega þegar kemur að bókunum á styttri utanlandsferðum yfir vetrarmánuðina líkt og fjármálastjóri Gatwick flugvallar í London bendir á í samtali við Financial Times. Blaðið hefur það svo eftir ónefndum stjórnanda evrópsks flugfélags að útlitið sé óljóst fyrir veturinn og búast megi við minni eftirspurn eftir borgarferðum.

Gangi það eftir þá gætu hlutabréf í flugfélögum dalað enn frekar en samkvæmt Financial Times hefur markaðsvirði evrópskra flugfélaga lækkað um fimmtán prósent að jafnaði í ár. Lækkunin er ennþá meiri hjá stærstu flugfélagasamteypum Evrópu. Til samanburðar hefur gengi Icelandair hins vegar hækkað um þrjú prósent í ár en lækkunin nemur nærri fimmtungi hjá Play.

Í grein Financial Times bendir hlutabréfagreinandi á að almennt kaupi fjárfestar ekki hlutabréf í flugfélögum þegar kreppa ríkir í efnahagslífinu. Greinandinn bætir því þó við að þrátt fyrir verri efnahagshorfur þá hafi stóru flugfélögin ekki gefið neitt út um að eftirspurn hafi dregist saman.

Forstjóri hins nýja norska flugfélags Norse spáir því að fólk muni setja ferðalög í forgang en ekki kaup á nýjum heimilistækjum. Og sérfræðingar greiningafyrirtækisins Moody´s sjá heldur ekki fyrir sér að tekjur flugfélaga falli í líkingu við það sem hefur gerst í kreppuástandi á árum áður. Skýringin á því liggi meðal annars því óvenjulega ástandi sem ferðatakmarkanir á tímum Covid-19 ollu.