Samfélagsmiðlar

Hugsjón og sérviska

Sjávarpakkhúsið í Stykkishólmi er rekið með þeirri hugsjón að færa gestinum það besta sem í boði er hvern dag úr matarkistu Snæfellsness og fiskimiða í kring. Þetta krefst mikillar vinnu eða „hugsjóna og sérvisku," svo notuð séu orð eigandans, Söru Hjörleifsdóttur, sem Túristi hitti á dögunum.

Sara Hjörleifsdóttir

Sara Hjörleifsdóttir í Sjávarpakkhúsinu

Sara Hjörleifsdóttir er Hólmari og hefur átt og rekið Sjávarpakkhúsið í 10 ár og segir að vel hafi gengið. Ríkisstyrkirnir fleyttu rekstrinum í gegnum Covid-19 og síðan tók gestum að fjölga í vor. Hún segist þó sakna þess að sjá ekki fleiri Íslendinga. „Þeir eru dálítið mikið í útlöndum, elta veðrið þegar þeir eru heima. Veðrið hefur ekki leikið við okkur í sumar. En auðvitað fáum við íslenska gesti, þá helst um helgar. Svo sækja þeir staðinn á veturna. Íslendingar eru betri kúnnar, kaupa meira – borða meira, drekka meira. Þannig að við höfum saknað þeirra pínulítið í sumar. Bærinn er samt smekkfullur af fólki og öll gistirými eru uppbókuð út september.”

Sara segir jákvætt að helstu veitingastaðir í Stykkishólmi,  kaffihús og vagn með fisk og franskar séu þarna í hnapp við höfnina. „Mér finnst meiri sjarmi yfir þessu en að staðirnir væru dreifðir um allan bæ.”

Sjávarpakkhúsið

Það dugar að líta út um gluggann á Sjávarpakkhúsinu til að sjá ferðamannastrauminn í Stykkishólmi – og auðvitað renna margir hýru auga í átt að þessum veitingastað í yfir 100 ára gömlu timburhúsi við höfnina. Það má eiginlega segja að allir staðir sem selja veitingar í Stykkishólmi séu smekkfullir flesta daga yfir hásumarið. Stærsti hluti gesta á Sjávarpakkhúsinu gistir í bænum, eru að ljúka ferðadeginum en vilja borða góðan mat áður en lagst er til hvílu. Svo koma margir seint um kvöld, úr Breiðafjarðarferjunni eða akandi, og halda svo áfram för sinni inn í nóttina. En er styrkleiki Stykkishólms að bærinn skuli vera endastöð margra eftir ferðalög um Snæfellsnes, Dalina eða Breiðafjörð? „Það er bæði og,” segir Sara. „Það vinnur með okkur yfir sumartímann þegar hér er mikil traffík og margir gista hér, en á veturna þegar flestir halda sig í Reykjavík, og þar í kring, þá dettum við svolítið út. Þá ekur fólk um útnesið, fer í þjóðgarðinn, og snýr svo til baka og heldur til Reykjavíkur. Stykkishólmur er þá orðinn óþarfur botnlangi þykir ýmsum og sleppa því að fara þangað. Ferjutúristar eru miklu færri á veturna. Þetta vinnur gegn okkur. Á sumrin hefur bærinn sem slíkur sitt aðdráttarafl með gömlu húsunumm og náttúrufegurðina í kring. Okkur vantar einhvern geggjaðan segul á veturna,” segir Sara en bætir því við að unnið hafi verið að því á undanförnum árum að breyta þessu – koma því til skila að þú ferð ekki um Snæfellsnesið í dagsferð.

„Þú þarft að gefa þér meiri tíma á Snæfellsnesi. Við viljum að fólk komi og sé ekki á hraðferð. Hér er svo margt að skoða, líka á veturna. Þetta svæði er ótrúlega fallegt á veturna.”

Við sitjum og spjöllum fyrripart dags. Yfirbragð staðarins er rólegt en innan úr eldhúsinu heyrist dálítið glamur. Það er verið að undirbúa kvöldið. Fyrstu gestirnir koma klukkan sex. Fyrstu árin var Sjavarpakkhúsið opið frá morgni og fram á nótt en Covid-19 breytti stefnunni sumarið 2020.

Kokkurinn Noel Bas leggur á ráðin

„Við fundum strax að það hentaði rekstrinum miklu betur að hafa aðeins opið á kvöldin og starfsfólkið var ánægðara. Fólk er að vaxa upp úr því að vinna þessa 18 tíma vinnudaga,” segir Sara.

En auðvitað er hún alltaf í vinnunni, vakin og sofin. Við tölum um mat. Þetta snýst allt um mat. Stundum skýst hún sjálf í eldhúsið og tekur þátt í eldamennskunni. Miklar breytingar hafa orðið á þessum 10 árum sem hún hefur staðið vaktina. Þetta var í byrjun súpueldhús með lítilli heimiliseldavél. „Svo þegar við höfðum safnað dálitlum pening var sett upp gott eldhús. Betri aðstaða skilaði fleiri réttum og meiri gæðum.”

Staðurinn er með 22 sæti fyrir gesti á neðri hæð og í vor var bætt við 16 sætum á hæðinni fyrir ofan. 

Dyrnar á Sjávarpakkhúsinu eru opnaðar. Inn gægist erlendur ferðamaður og spyr með vonarsvip hvort hægt sé að fá borð í kvöld. Jú, Sara bendir honum brosandi á að bóka borð á heimasíðunni. Við höldum áfram spjalli um mat. 

„Við erum eingöngu með fisk og annað sjávarfang. Þetta er staður sem er rekinn af hugsjón og sérvisku. Það er langt síðan við ákváðum að þetta væri ekki staður sem byði upp á eitthvað fyrir alla. Við viljum bjóða allt fyrir suma. Við erum ekki með barnamatseðil og margt er bannað að koma með hingað inn, t.d. tómatsósu. Við förum út um mela og móa að tína jurtir og erum með gróðurhús ofan við veitingastaðinn, þar sem við ræktum kryddjurtir, ætiblóm og tómata, og reynum að vera eins umhverfisvæn og sjálfbær og mögulegt er. Fyrir nokkrum árum fengum við umhverfisvottun, Svansmerkið, og vinnum eftir þeim stöðlum. Þetta er ekki þessi venjulega túristabúlla,” segir Sara og brosir.

Túristi jánkar því. 

Það sem vantar upp á af salati, kryddi og blómum er sótt til Áslaugar Sigvaldadóttur á Lágafelli á sunnanverðu Snæfellsnesi. 

Gróðurhúsið fyrir aftan veitingastaðinn

Það eru fáir réttir á matseðlinum í Sjávarpakkhúsinu og það er vandað til verka. Réttum er skipt ört út af matseðli. Árstíðir margra aðfanga eru mjög stuttar. Sara nefnir eltingaleik við íslensk ber. Íslensk jarðarber eru í boði aðeins í skamman tíma en þá taka við önnur ber úr náttúrunni í eftirréttina. 

Sjávarpakkúsið fær skelfisk, hörpuskel og bláskel, úr nágrenni Stykkishólms og annað fiskmeti héðan og þaðan af Snæfellsnesi. Mikil vinna liggur í því að keita uppi rétta hráefnið. Um hásumar er erfitt að fá góðan fisk. „Það er ein ástæðan fyrir því að við skiptum ört út réttum á matseðli. Við viljum ekki lenda í því að þurfa að fara langt að sækja fiskinn. Þá er hann ekki eins og við viljum hafa hann. Við skiptum frekar út og miðum við það sem hægt er að fá hverju sinni hér í grenndinni.” Bláskelina fær Sjávarpakkhúsið frá Símoni Sturlusyni, skeljabónda, sem hóf að ræktunina á köðlum 2007 og hefur náð miklum árangri þrátt fyrir nokkra tregðu á markaðnum fyrstu árin. Það þurfti stjörnukokka til að opna augu fólks fyrir gæðum kræklingsins úr Breiðafirði. Frá Símoni fær Sjávarpakkhúsið líka þang og annan sjávargróður sem hægt er að meðhöndla með ýmsu móti.

Já, við tölum um skelfisk, hinn fræga breiðfirska skelfisk. Sara lýsir því hvernig straumar í firðinum færa bláskelinni mikið æti svo hún dafnar betur en annars staðar, verður holdmeiri. Það var alltaf hægt að forðast hungrið við Breiðafjörð með því að éta fiskinn innan úr skelinni – þó það væri kallað að lepja dauðann úr skel. Skrýtið fólk, Íslendingar. Nú er kræklingur og annar skelfiskur talinn meðal þess besta sem vandaður veitingastaður eins og Sjávarpakkhúsið getur boðið gestum sínum. 

Sjávarpakkhúsið er staður með persónulega nálgun í stíl og vali á réttum, hengir sig ekki á einhverja stefnu í eldamennsku.

Af matseðli dagsins

„Við gerum fyrst og fremst það sem okkur þykir skemmtilegt – ekkert sem er leiðinlegt. Enginn réttur fer á seðilinn nema að okkur þyki hann góður. Við vinnum með það hráefni sem við getum fengið á þessu svæði hverju sinni. Starfsfólkið kemur úr öllum áttum, margir menningarheimar mætast.” 

Staðsetningin við höfnina er auðvitað frábær, ekki bara útsýnið.

„Við getum stundum bent gestinum á bátinn sem kom með fiskinn sem hann er að borða og belgina sem halda uppi línunum  sem kræklingurinn vex á.” 

„Þetta er skemmtilegur bransi. Ég held að það sé þannig að annað hvort fíli fólk þetta eða ekki. Ef þú fílar þetta er erfitt að hætta. Þetta er mjög skemmtilegt. Ég tala ekki um að vera svo heppin að fá að reka eigin stað og geta gert það sem þér hentar, vera endalaust að skapa eitthvað nýtt. Þetta væri ekki eins gaman ef staðsetningin væri leiðinleg. Hér erum við með aðgengi að öllu þessu frábæra hráefni og fegurðin í umhverfinu gerir þetta allt svo skemmtilegt.” 

Hugað að plöntunum

Eftir að hafa heilsað upp á kokkinn Noel Bas, sem er að undirbúa kvöldið í Sjávarpakkhúsinu, þá förum við Sara aftur fyrir húsið og lítum á plönturnar í gróðurhúsinu. Hún sýnir mér ætiblóm, segir blómin sæt en blöðin með dálítið hvössu bragði. Síðan rekjum við okkur framhjá pottum með hinum og þessum kryddjurtum og blómum sem eiga eftir að gleðja bragðlauka og augu gesta veitingahússins. Þessi ræktun er á fyrsta ári svo tómataplantan skilar ekki miklu í haust. En fólkið í Sjávarpakkhúsinu er þolinmótt.

Í þessu felst sérstaða Sjávarpakkhússins, þolinmæði og þrautsegju – að sækja hráefni til matargerðar sem allra mest í nágrennið og láta hjartað og virðingu fyrir umhverfinu ráða hvað eldað er hverju sinni.

Maturinn endurspeglar hugsjónir og smekk þeirra sem eiga og reka staðinn. 

Sara, Hekla dóttir hennar, og kokkurinn Noel Bas
Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …