Íslenskir túristar fjölmennir í Berlín á ný

Mynd: Dagmar Schwelle / VisitBerlin

Það gekk lengi vel brösuglega að halda úti áætlunarflugi héðan til Berlínar allt árið um kring. Ferðirnar voru tíðar yfir sumarið en lágu niðri yfir vetrarmánuðina. Iceland Express sem var stórtækast á þessari flugleið gaf til að mynda upp á bátinn áform sín um ferðir til þýsku höfuðborgarinnar veturinn 2012 til 2013.

Wow Air lét hins vegar vaða og síðar spreytti Airberlin sig á vetrarflugi til Íslands frá Berlín. Það var svo fyrst við gjaldþrot þýska flugfélagsins haustið 2017 sem stjórnendur Icelandair tóku sénsinn á Berlín enda brenndir eftir nokkrar mislukkaðar sumarvertíðir í Berlín árin fyrir efnahagshrunið.

Núna fljúga svo þotur Icelandair og Play til Berlínar nærri alla daga ársins og þýskum ferðamönnum hér á landi fjölgar yfir vetrarmánuðina. Íslendingar nýta sér líka þessar góðu samgöngur og til marks um það þá voru gistinætur Íslendinga á hótelum í Berlín litlu færri á fyrri helmingi þessa árs en þær voru á sama tíma árið 2019.

Gistinætur Íslendinga í Berlín voru fyrstu sex mánuði ársins 17.386 en á sama tíma árið 2019 voru næturnar 19.769. Batinn er því mikill og sérstaklega þegar haft er í huga að utanlandsferðir voru ekki sérstaklega tíðar fyrstu mánuði ársins vegna útbreiðslu ómíkrón afbrigðis kórónaveirunnar.