Íslendingar taka miklu meira út en áður í hraðbönkum

Mynd: Íslandsbanki

Úttektir á reiðufé úr hraðbönkum hér á landi námu nærri 3,3 milljörðum króna í júlí og þar af voru íslensk kort notuð til að taka út 2,4 milljarða kr. Þetta er hærri upphæð en sést hefur gagnagrunni Rannsóknarseturs verslunarinnar en sá nær aftur til mars árið 2017.

Notkun íslensku kortanna hefur reyndar verið óvenju mikil það sem af er ári og numið að jafnaði 1,9 milljarði kr. á mánuði. Meðaltalið var rétt rúmur einn milljarður fyrstu sjö mánuði síðasta árs en þá var neysla landsmanna að mestu bundin við Ísland því færri voru á ferðinni í útlöndum vegna sóttvarnaraðgerða við landamæri.

Þrátt fyrir að nú streymi fólk milli landa þá hefur notkun á íslenskum kortum í hraðbönkum hér innanlands aukið umtalsvert líkt og fyrr segir.

Öðru máli gegnir um úttektir á reiðufé með erlendum kortum því þær eru miklu minni núna en áður var. Í nýliðnum júlí námu þær samtals 900 milljónum en til samanburðar var upphæðin 2,6 milljarðar í júlí 2016. En á þeim tíma var töluverð umræða um greiðslur undir borðið vegna skammtímaleigu á húsnæði til ferðalanga.