Íslensku flugfélögin gera út á gosið

Skjámynd af enskum heimasíðum Play (efri) og Icelandair (neðri).

Myndir af eldgosi eru áberandi á erlendum heimasíðum Icelandair og Play enda kom það fram í máli forsvarsmanna félaganna að sala á flugmiðum hefði tekið kipp um leið og það fór að gjósa í Meradölum þann 3. ágúst. Hjá Play „hrúguðust bókanir“ inn.

Eldsumbrotin draga því vagninn í markaðssetningu íslensku flugfélaganna út í heimi nú þegar sumarvertíðinni fer að ljúka. Vetraráætlunin hefst þó ekki formlega fyrr en í lok október en auk Icelandair og Play þá gera tuttugu erlend flugfélög ráð fyrir áætlunarflugi hingað í haust. Icelandair og Play standa þó undir langstærstum hluta framboðsins eða ríflega sjötíu prósentum eins og sjá má hér fyrir neðan.