Enginn skortur hefur verið á hörmungarsögum af ferðalögum fólks um heiminn í sumar. Rætt hefur verið um vandræði á flugvöllum, troðning á vinsælum stöðum og svo hafa fregnir af voðalegum hita í Evrópu verið áberandi. Þetta gildir hinsvegar ekki um Asíulöndin. Þangað hafa leiðir verið að opnast, ekki fer sögum af týndum töskum eða aflýstum flugferðum, en ferðafólkið hefur ekki skilað sér aftur, eins og CNN fjallar um á ferðasíðum sínum. Vakin er sérstök athygli á hruninu í Japan. Á tímabilinu 10. júní til 10. júlí komu aðeins um 1.500 ferðalangar í skemmtiferðum, samkvæmt upplýsingum frá útlendingaeftirliti Japans, eða 95 prósentum færri en á sama tímabili 2019 – fyrir heimsfaraldurinn. Sannkallað hrun. Flestir þessara sem þó komu voru frá Tælandi og Suður-Kóreu, 400 manns frá hvoru landi, en 150 Bandaríkjamenn létu sig hafa að skoða Japan með grímu í hópferð.
Á þessu eru góðar skýringar.
Jafnvel þó að Japan sé sagt opið ferðafólki reisa stjórnvöld þær skorður að fólk sem vill koma í skemmtiferðir til landsins verður að koma í skipulögðum hópum en ekki sem einstaklingar. Þetta er í huga flestra vestrænna ferðamanna óásættanlegt. Kona í New York, sem ferðaðist oft til Japans, segir við CNN: „Við viljum ekki láta passa okkur eins og börn.“ Í stað þess að fara enn eina ferðina til Japans ráðgerir konan að ferðast með manni sínum til Suður-Kóreu í ár. „Við nennum ekki að lenda í einhverju sóttkvíarstandi, viljum bara flækjast um, versla og gleypa í okkur rándýrt sushi.“

Japan er sem sagt ekki í raun opið land þó að því sé haldið fram. Enn er þess krafist að fólk gangi með grímur, hópferðirnar eru gjarnan mjög dýrar – og það sem er kannski verst er að krafist er sóttkvíar áður en haldið er inn í landið. Fólk í Hong Kong, Tævan og Suður-Kóreu sem áður gat stokkið með stuttum fyrirvara í helgarferð til Japans sést þar varla lengur. Þetta hefur auðvitað komið sér illa fyrir þá sem hafa haft tekjur af þessum gestum, eins fínir veitingastaðir. Margir þeirra hafa þó að sögn lifað góðu lífi í gegnum faraldurinn, þökk sé heimafólkinu sem ekki hefur komist til útlanda og borðar meira og oftar á fínni stöðum heimafyrir.
Fleira skýrir hrunið í Japan. Árið 2019 voru Kínverjar fjölmennastir ferðamanna í landinu, eða 9,2 milljónir. Nú er Kína hinsvegar einangrað land. Mjög stífar sóttvarnarkröfur eru gerðar til heimafólks og gesta. Kínverska ferðaþjónustan er í dái. Þetta kemur hart niður á Japan, Ástralíu, Síngapúr og Suður-Kóreu, en þessi lönd öll hafa verið vinsælir áfangastaðir kínverskra ferðamanna.

Við þessi vandræði, sem rakin eru í CNN, má líka bæta áhrifum flugbanns yfir Rússland. Stríðið í Úkraínu hefur raskað áætlunum flugfélaga og dregið úr ferðavilja margra.
Á meðan harðar takmarkanir gilda varðandi ferðalög til Japans er þess ekki að vænta að ferðamönnum fjölgi þar mikið.
Enginn vafi er þó talinn á að Japan er á óskalista margra ferðalanga.
