Japan opnar í hálfa gátt

Útsýn úr Tokyo Skytree í Sumida, Tókýó Mynd: ÓJ

Japan hefur fylgt ströngum Covid-reglum á landamærum sínum og hefur ferðaþjónustan í landinu því verið svipur hjá sjón það sem af er ári. Þegar tilslakanir hófust í júní eftir tveggja ára lokun vegna heimsfaraldursins hefur einstaklingum verið meinað að koma í frí til landsins, aðeins skemmtiferðir í hópum hafa verið leyfðar, og kröfur gerðar til fólks í viðskiptaerindum um vegabréfsáritun. Þá voru gerðar kröfur um nýjar bólusetningar og sóttkví áður en haldið var inn í landið.

Í dag tilkynnti Fumio Kishida, forsætiaráðherra Japans, að fallið yrði frá kröfunni um að bólusett ferðafólk þyrfti í próf vegna Covid-19 fyrir brottför. Þess hefur verið krafist af þeim sem hyggja á Japansferð að geta sýnt ekki eldra en þriggja sólarhringa gamalt vottorð um neikvætt próf. Forsætisráðherrann greindi fréttamönnum frá því að frá 7. september yrði þess ekki krafist af fólki sem bólusett hefði verið þrisvar að framvísa neikvæðu vottorði.

Mikill þrýstingur hefur verið á japönsk stjórnvöld frá viðskiptalífinu heima fyrir og erlendis að slakað yrði á kröfum á landamærum sem hafa aukið á erfiðleika í efnahagslífinu. Þrátt fyrir þessar tilslakanir sem forsætisráðherrann boðaði verða áfram í gildi takmarkanir á því hversu mörgum er hleypt inn í landið á degi hverjum. Fjölmiðlar í Japan sögðust þó í gær hafa heimildir fyrir því að í skoðun væri að miða við 50 þúsund á dag í stað 20 þúsunda. Forsætisráðherrann vildi ekki staðfesta þetta, sagði aðeins að slakað yrði hægt og rólega á landamærahindrunum og vonandi yrði hægt að færa einhverjar fréttir af því fljótlega. Það myndi ráðast af því hvernig mál þróuðust varðandi sóttkví og smit.

Japanar eru enn að takast á við áhrif sjöundu bylgju smita. Metfjöldi andláta vegna sjúkdómsins voru skráð í gær, 343 talsins, og hefur faraldurinn enn veruleg áhrif á japanskt atvinnulíf þó aðgerðir stjórnvalda miðist aðallega að því að verja eldra fólk og lasburða.

Götumynd frá Arakawa, Tókýó – frá því fyrir heimsfaraldur – Mynd: ÓJ