Munu „víxla út vélum“ í vetur

Flugferðum Play fjölgar ekki í takt við stækkun flugflotans nú í vetur. Birgir Jónsson, forstjóri Play, útskýrir málið og segir engin plön um hlutafjáraukningu.

Það verða samtals tíu þotur komnar í liti Play áður en næsta sumarvertíð hefst. Mynd: Amsterdam Schiphol

Vetraráætlun fluggeirans hefst formlega í lok október og þá fækkar áfangastöðunum og ferðirnar verða ekki eins tíðar. Flugfloti Play mun þó stækka á þessu tímabili því fjórar þotur bætast við á næstunni. Nú í sumar hefur félagið haft sex þotur en síðastliðinn vetur voru þær bara þrjár.

Flugfloti Play verður því ríflega þrefalt stærri í vetur en þann síðasta en flugáætlun félagsins gerir hins vegar ráð fyrir að fjöldi brottfara aukist hlutfallslega nokkru minna samkvæmt talningu Túrista.

Spurður út í notkunina á nýju þotunum þá segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, að það sé ætlunin að „víxla út vélum“ í vetur. Nýju þoturnar fjórar verði flestar í geymslu erlendis en nýttar þegar núverandi flugvélar Play þurfa í reglubundnar viðhaldsskoðanir í vetur og eins þegar sætunum í þotunum verður fjölgað.

„Því verðum við með 6 vélar en ekki endilega alltaf sömu 6. Þetta er hluti af þeim kjörum sem við fengum í Covid, að vera með vélarnar en bera ekki kostnað fyrr en við byrjum að nota þær næsta vor. Við munum líka hafa eina hérna til að verjast töfum, bilunum og slíku sem getur komið upp þegar vetrarveðrin hefjast. Þetta tengimódel er viðkvæmt fyrir töfum og þá er gott að hafa auka vél til að grípa í,“ bætir Birgir við.

Play birti uppgjör fyrir annan fjórðung ársins á mánudag og þar mátti sjá að um fjörutíu prósent af rekstrarkostnaði flugfélagsins skrifast á kaup á eldsneyti. Olíuverð hefur lækkað nokkuð nú í sumarlok en er þó hátt í tvöfalt hærra en Play gerði ráð fyrir í þeirri rekstrarspá sem birt var fjárfestum í fyrra.

Forstjóri flugfélagsins segist þó aðspurður ekkert í plönum Play kalla á hlutafjáraukningu til að fjármagna reksturinn.

„Við erum ekki að gera ráð fyrir að olían lækki mikið eða hratt, það er ekki forsenda fyrir neinu hjá okkur, þó að það væri velkomið. En að sjálfsögðu ef allt fer á stað aftur í heimsmálunum og verðið eykst um tugi prósenta aftur og helst þar þá þarf eitthvað gera í því, minnka framboð, hækka verð og þess háttar. En það er ekkert í okkar plönum sem kallar á hlutafjáraukningu til að fjármagna reksturinn. Lausafjárstaðan núna, í lok annars fjórðungs, er lágpunktur í okkar plönum og okkur líður vel með „cash-stöðuna“ og framtíðina í þeim málum,“ svarar Birgir.

Handbært fé Play í lok annars fjórðung nam um 5,3 milljörðum kr. en til viðbótar átti félagið inni um 3,6 milljarða kr. hjá kortafyrirtækjum.