Ódýr sólarlandaflug næstu daga

Þeir sem komast út með stuttum fyrirvara geta fundið ódýrt far úr landi.

Mynd: Ferðamálaráð Kanaríeyja

Um leið og skólahald hefst á ný þá lýkur háannatímanum í ferðageiranum. Og til marks um það þá hafa farmiðar til sólarlanda lækkað umtalsvert frá því sem verið hefur síðustu mánuði. Hjá Plúsferðum er til að mynda í boði flug til Alicante í næstu viku á 9.900 krónur og hjá Play kostar farið til spænsku borgarinnar aðeins þúsund krónum meira. Til Tenerife er hægt að komast fyrir um 20 þúsund krónur.

Þeir sem vilja heldur til Ítalíu geta flogið til Napolí í næstu viku fyrir um sjö þúsund krónur með Wizz Air. Sæti hjá félaginu til Feneyja er líka ódýrt. Eins er hægt að fljúga til Verona strax á morgun fyrir fimmtán þúsund með Plúsferðum.

Í mörgum tilvikum verður heimferðin dýrari og svo þurfa þeir sem geta ekki látið litlar handfarangurstöskur duga oft að borga fyrir meiri farangur.