Olíuverðið komið töluvert undir það sem var þegar flugfélögin hækkuðu eldsneytisálagið

Eldsneytisálagið hjá Icelandair var hækkað í vor og nemur allt að 24.600 kr. ef ferðast er vestur um haf.

Það er töluvert ódýrara fyrir flugfélögin að dæla olíu á þoturnar í dag en það var í lok vetrar. Mynd: BP

Kostnaður við kaup á þotueldsneyti jókst hratt eftir innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar. Stjórnendur Play brugðust við þessu með því að taka upp sérstakt eldeytisgjald og hjá Icelandair var tilkynnt um ríflega hækkun á þessum lið. Sú hækkun gekk í gildi þann 1. apríl en þá kostaði tunna af Norðursjávarolíu 104 dollara.

Verðið hækkaði umtalsvert í vor og sumar og fór hæst upp í 124 dollara á tímabilinu. Nú hefur verðhækkunin að hluta til gengið tilbaka og til að mynda hefur olíuverðið lækkað um nærri fimm af hundraði í dag.

Tunnan kostar því rétt um 93 dollara á þessari stundu og er því um tíund ódýrari en daginn sem Icelandair hækkaði eldsneytisálagið hjá sér fyrir sumarvertíðina.

Skýringin á lækkun dagsins er rakin til mögulegs samkomulags Írana og Evrópusambandsins varðandi kjarnavopn en ef aðilar ná saman þá gæti olía frá Íran flætt inn á evrópska markaðinn á ný.