Play flutti 110 þúsund farþega í júlí

Play flutti 110 þúsund farþega í júlímánuði og var sætanýtingin 87,9 prósent. Félagið er með sex þotur af Airbus-gerð í farþegaflutningum og hyggst bæta fjórum við næsta vetur.

Play
Play-vél flýgur yfir Lissabon Mynd: ÓJ

Farþegafjöldinn hjá Play jókst um 25 prósent frá júní til júlí, fór úr tæplega 88 þúsundum í 110 þúsund. Sætanýtingin var 69,7 prósent í maí, 78,2 í júní og 87,9 í júlí. Í samanburði við það var sætanýtingin hjá Icelandair 89,6 prósent í júlí. Stundvísi hjá Play var 79 prósent, töluvert betri en hjá Icelandair, sem hafði 64 prósenta stundvísi í síðasta mánuði.

Bæði íslensku félögin, eins og önnur, hafa mátt glíma við truflanir á flugvöllum vegna manneklu. „Í júlí vorum við á mjög góðri leið með stundvísina þrátt fyrir bagalegar aðstæður á flugvöllum. Við lítum á það sem afrek. Hver kostnaðareining án eldsneytis er enn undir fjórum bandarískum sentum, eldsneytisverð fer lækkandi, tekjueiningin fer hækkandi og bókunarstaðan er afar góð,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Play er nú með sex þotur í notkun. Sjötta þotan, Airbus A320neo, bættist við flotann í sumar og nýttist við farþegaflutninga í júlí. Flugfélagið er því nú með þrjár Airbus A321neo og þrjár Airbus A320neo í rekstri. Næsta vetur eiga að bætast við fjórar A320/321. Vorið 2023 ættu því tíu Airbus-þotur að fljúga undir merkjum Play.