Ráðherra bregst við gagnrýni

Ferðamálaráðherra segir í Morgunblaðinu í dag að það sé forgangsmál í ráðuneyti sínu að móta nýja aðgerðaáætlun á sviði ferðamála. Framkvæmdastjóri Eldingar - Hvalaskoðunar og stjórnarformaður Íslenska ferðaklasans gagnrýndi einmitt í viðtali við Túrista í gær áhugaleysi stjórnvalda og að ekkert bólaði á slíkri áætlun.

Morgunblaðið, 27.8.2022

Grein Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptamálaráðherra, í Morgunblaðinu er með fyrirsögninni „Ferðaþjónustan styrkir ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins.“ Þar er bent á að nú að loknum heimsfaraldri sé það enn á ný ferðaþjónustan sem drífi áfram hagvöxt í landinu. Ráðherra segir að áfram sé gert ráð fyrir „kröftugum bata“ í ferðaþjónustunni en viðurkennir að í verðlagshækkunum og verðbólgu felist vissulega áskoranir.

Í viðtali sem Túristi birti daginn áður en grein ráðherrans kom fyrir augu lesenda Morgunblaðsins gagnrýnir Rannveig Grétarsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Eldingar, aðgerðaleysi stjórnvalda í málefnum ferðaþjónustunnar. Auk þess að reka Eldingu er Rannveig formaður Samtaka hvalaskoðunarfyrirtækja og er stjórnarformaður Íslenska ferðaklasans. „Það er þetta áhugaleysi hjá ríkisvaldinu. Okkur líður þannig að fókusinn sé farinn. Nú sé ferðaþjónustan komin á fullt, erfiðleikarnir að baki, við búin að jafna okkur. En þetta gerist ekki á þremur mánuðum. Farið var í stefnumótun og mikla vinnu fyrir þremur árum en ekki er komin nein aðgerðaáætlun! Við höfum mjög kallað eftir aðgerðaáætlun en fáum lítil svör. Engi merki eru um það yfir höfuð að verið sé að vinna slíka áætlun.” Þessu svarar ráðherra með sínum hætti í Morgunblaðinu – án þess að nefna einu orði gagnrýni Rannveigar:

„Eitt helsta forgangsverkefnið nú í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfluga aðgerðaáætlun á sviði ferðamála á grunni Framtíðarsýnar og leiðarljóss íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Þar er lögð áhersla á sjálfbærni á öllum sviðum.“

Lilja minnist ekki á hvalveiðar í grein sinni í Morgunblaðinu en fyrr í sumar kom fram sú skoðun hennar að hún teldi ekki þörf á því að breyta fyrirkomulagi hvalveiða til að verja hagsmuni ferðaþjónustunnar. Í viðtalinu við Túrista ítrekaði Rannveig óánægju sína með þessa afstöðu ráðherra ferðamála og sagði að „það væri mikilvægt skref í umhverfis- og sjálfbærnimálum“ að hætta hvalveiðum.

„Ísland væri að taka afstöðu. Stjórnvöld hafa ekki hleypt hvalaskoðunarfyrirtækjunum að borðinu hjá Alþjóða hvalveiðiráðinu, sem fjallar þó um hvalaskoðun og áhrif þeirra á hvali í heiminum. Ísland viðurkennir hinsvegar ekki að hvalaskoðun sé nýting.“