Þriðji hver bandarískur

Vægi bandaríska ferðamanna er sem fyrr hátt hér á landi en þó lægra en sumarið 2018.

Ferðafólk á leið í hvalaskoðun
Ferðafólk á leið í hvalaskoðun í Reykjavík MYND: ÓÐINN JÓNSSON

Það liggur ekki fyrir hversu margir útlendingar innrituðu sig í flug frá Keflavíkurflugvelli í júlí en sú talning hefur lengi verið notuð til að leggja mat á fjölda erlendra ferðamanna hér á landi. Það er þó ljóst að Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir í þessum hópi eða einn af hverjum þremur (34%) samkvæmt frétt á vef Ferðamálastofu.

Hlutfallið var 28 prósent í júlí árið 2019 og 37 prósent á sama tíma árið 2018.

Þjóðverjar voru næstflestir í hópi erlendra brottfararfarþega eða 7 prósent af heildinni sem er í takt við það sem var á þessum tíma árs fyrir heimsfaraldur. Danir koma næstir því um sex af hverjum eitt hundrað útlendingum voru með danskt vegabréf. Þetta er nærri tvöfalt hærra hlutfall en var í júlí árin 2018 og 2019.