Samfélagsmiðlar

„Því meiri fjölbreytni því blómlegri”

Margir ferðamanna sem hingað eru komnir hafa lítil fjárráð og eyða ekki miklu á meðan þeir dvelja á landinu. Þessir ferðamenn eru samt mjög mikilvægir - eiginlega framtíðarfjárfesting.

Ferðalangar í Reykjavík

Þetta er skoðun Stefáns Guðmundssonar, eiganda Gentle Giants á Húsavík, sem Túristi ræddi við á dögunum. „Fjölbreytni rennir styrkari stoðum undir heildina. Ég vil sjá bakpokaliðið þó að það eyði litlu.”

Sjálfur fær hann tæplega blankasta ferðafólkið um borð í hvalaskoðunarbáta sína. Ungur ferðamaður með bakpoka sem ferðast með almenningssamgöngum eða á puttanum hefur kannski ekki ráð á því að fara í hvalaskoðunarferð eða í ævintýraferð upp á jökul, en ef hann hrífst af landinu gæti hann komið aftur þegar fjárhagur leyfir og látið draumana rætast.

Sama er að segja um krakkana í skólaferðinni. Þau eru með litla sem enga peninga í sinni fyrstu ferð. En allt þetta unga fólk er afar mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustu, segir Stefán. 

„Ég hafði lúmskt gaman af því fyrir 10 til 15 árum þegar nokkrir málsmetandi menn komu fram og töluðu um að Ísland ætti að vera dýrt og ýjuðu að því að við ættum bara að einbeita okkur að því að ná í fimm-stjörnu-farþega. Ég var algjörlega á móti þessu. Skólakrakkar, sem hafa komið hingað á veturna síðustu 20 árin og héldu rútufyrirtækjum gangandi en skiluðu ekki miklu, eru hluti af bestu langtíma markaðssetningu sem Ísland hefur stundað. Það er nefnilega pottþétt að 15 eða 16 ára krakkar munu koma aftur með fullt af peningum. Þetta þarf því að halda áfram. Því meiri fjölbreytni því blómlegri verður ferðaþjónustan. Það er misskilningur ef menn halda að við getum haft einsleita ferðaþjónustu og látið hana blómstra. Allt sem er einsleitt, hvort sem það er ferðaþjónusta eða annað, verður fyrir skakkaföllum á endanum. Fjölbreytni rennir styrkari stoðum undir heildina. Ég vil sjá bakpokaliðið þó að það eyði litlu. Það sendir myndir á samfélagsmiðla.” 

Ekkert markaðsátak íslenskrar ferðaþjónustufyrirtækja eða opinberra aðila gæti sem sagt skilað fleiri myndum og jákvæðum umsögnum um Ísland en einmitt unga og blanka ferðafólkið gerir. 

Austur á Héraði hitti Túristi Þráin Lárusson, sem er umsvifamikill í hótel- og veitingarekstri þar eystra. Hann var þá nýbúinn að hitta áhrifamikinn lögfræðing frá Kraká í Póllandi, sem rekur stóra lögfræðistofu þar, er með umsvif í Varsjá og einnig utanlands. Ástæðan fyrir heimsókn pólska lögfræðingsins í Hallormsstaðaskóg var að rifja upp gömul kynni. Sá pólski hafði nefnilega verið fyrsti hótelstarfsmaður Þráins – fyrir 16 árum.

„Þá skipti hann á rúmunum hérna en er núna orðinn umsvifamikill lögfræðingur heima í Póllandi og erlendis.”

Þráinn segir að þeir félagarnir hafi rætt hversu litlir Íslendingar væru í raun á alþjóðlegum ferðamarkaði. „Hann benti á það hlæjandi að níu milljónir ferðamanna koma til Kraká á ári hverju.” Sjálfur telur Þráinn að ef rétt er haldið á spilunum megi fjór- eða fimmfalda ferðamannastrauminn til Íslands. Meðal þeirra sem koma í framtíðinni verða þá örugglega einhverjir þeirra fjölmörgu sem hér störfuðu á skólaárunum eða komu hingað staurblankir og þvældust um landið. 

Stefán Guðmundsson á Húsavík brosti út í annað þegar málsmetandi menn ýjuðu að því á sínum tíma að Íslendingar ættu að einbeita sér að því að fá hingað vel borgandi farþega. Þetta var þegar ódýrar flugferðir gerðu mörgum kleift að komast í sína fyrstu Íslandsferð.

„Varhugavert er þó að leggja að jöfnu magn og gæði,” sagði einmitt í Markaðspunktum Arion banka 21. október 2011. Greinendur Arion banka vöruðu þá við því að íslensk ferðaþjónusta einblíndi á fjölgun ferðafólks. „Með því að byggja upp ferðaþjónustu á þeirri forsendu að laða til landsins efnaðri ferðamenn væri hugsanlega hægt að auka gjaldeyristekjur án þess að ágangur ferðamanna verði íslenskri náttúru ofviða.” 

Greinendur bankans veltu sem sagt fyrir sér hvort ekki væri eðlilegra að laða að þá sem skiluðu meiri gjaldeyristekjum „en hinn almenni ferðamaður,” sem þeir nefndu svo. Það væri í þágu íslenskrar náttúru!

Þessi sjónarmið sem birtust fyrir meira en áratug heyrast af og til í almennri umræðu en dálitlar flettingar og gúgl skila líka andstæðum sjónarmiðum: að hvorki sé rétt né skynsamlegt að gera Ísland að sérstökum áfangastað ríka fólksins. Hitt er svo annað mál hvort það gerist að sjálfu sér. Ísland er mjög dýrt miðað við flest önnur lönd: kaffibollinn, smjörhornið, samlokan hamborgarinn, vatnsflaskan, bjórinn og vínglasið. Allt þetta og fleira kostar oft margfalt meira víðast – nema þá helst í Noregi og Sviss. 

Túristi veltir fyrir því sér hvort það gæti verið skynsamleg fjárfesting að við tryggðum með einhverjum hætti að „bakpokaliðið” hafi áfram ráð á að ferðast um landið og njóta þess sem það hefur að bjóða.

Við eignumst ekki betri kynningarfulltrúa. 

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …