Um 220 brottfarir í viku í vetur

Íslendingar sækja í sólar- og skíðaferðir með Icelandair næstu mánuði.

Kaupmannahöfn í vetrarbúningi. Mynd: Thomas Høyrup Christens / Copenhagen Media Center

Áætlun Icelandair fyrir komandi vetur gerir ráð fyrir að framboð á sætum verði á pari við það því sem var veturinn 2019 til 2020 en það var í byrjun mars það ár sem heimsfaraldurinn setti allt flug úr skorðum. Á síðasta fjórðungi þessa árs verður framboðið á tímabili meira en það var fyrir þremur árum síðan.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að vinsælustu áfangastaðirnir meðal íslenska farþega séu Kaupmannahöfn, London, New York og Boston en auk þess hafi verið mikil eftirspurn eftir sólar- og skíðaferðum til Tenerife, Alicante, Munchen og Salzburg. 

„Í vetur verður að meðaltali flogið sautján sinnum í viku til New York, yfir tuttugu sinnum til London, ellefu sinnum til Boston og tvisvar til þrisvar á dag til Kaupmannahafnar. Með því að bjóða fleiri en eina ferð á dag er unnt að bjóða viðskiptavinum upp á fjölbreyttari brottfarartíma innan dagsins sem eykur sveigjanleika til muna,“ segir í tilkynningu.

Icelandair sinni einnig innanlandsflugi og í vetur er gert ráð fyrir ferðum til Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða. Félagið flýgur um tólf sinnum í viku til Ísafjarðar, 28 til 39 sinnum til Akureyrar og um tuttugu sinnum til Egilsstaða..

„Við gerum okkur grein fyrir mikilvægi góðra flugtenginga fyrir eyþjóð eins og Ísland og því er ánægjulegt að geta boðið upp á um 220 brottfarir á viku til 38 áfangastaða víðs vegar um heiminn yfir vetrartímann, auk öflugra tenginga innanlands,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.