United og Emirates í samstarf

Búist er við að bandaríska flugfélagið United Airlines og Emirates í Dúbæ tilkynni fljótlega um samning sem feli í sér sammerkt flug (codeshare).

Í frétt Reuters-fréttastofunnar segir að United hafi í dag sent fréttamönnum boð á viðburð sem haldinn verður 14. september með Scott Kirby, forstjóra United, og Tim Clark, forseta Emirates. Yfirskrift fundarins er „Fljúgið með okkur” og er þess vænst að gefin verði út sameiginleg yfirlýsing á fundinum. Samstarfið þarf væntanlega samþykki stjórnvalda í löndum beggja félaga.

Samkomulag um sammerkt flug felur í sér að flugfélögin geta selt og gefið út flugmiða í áætlunarferðir hvors annars. Hvort flugfélag um sig getur auglýst ferðir hins félagsins sem hluta af sinni eigin áætlun. Þetta kemur sér vel fyrir viðskiptavini sem þannig geta látið duga að bóka eitt flug hjá öðru félaginu þó hitt félagið annist tengiflug. 

Fyrr í sumar var tilkynnt um að American Airlines og Qatar Airways hygðust auka samstarf félaganna og sammerkt flug næðu til 16 ríkja til viðbótar. Með samkomulagi við Emirates svarar United þessu útspili American Airlines.

Fyrir fáeinum árum gagnrýndu talsmenn bandarísku félaganna að arabískir keppinautar þeirra við Persaflóa, Emirates og Qatar Airways, nytu ríkisstyrkja sem brengluðu alla samkeppni á svæðinu. Emirates og Qatar vísuðu þessum ásökunum á bug. Einu sinni var sagt: If you can´t beat them, join them.