Verkföll keppinautar skila sér í auknum tekjum

SAS heldur úti daglegum ferðum hingað frá bæði Ósló og Kaupmannahöfn.

SAS í Asíuflugi
Fyrri hluta júlímánaðar felldi SAS niður stóran hluta af flugferðum sínum vegna verkfalls flugmanna. MYND: SAS

Flugfélagið SAS flutti um þriðjungi færri farþega í júlí í samanburði við júní en skýringin á þessum samdrætti liggur í verkfalli flugmanna félagsins sem stóð yfir frá 4. til 19. júlí. Verkfallið kostaði félagið 20 milljarða króna en hluti þeirrar upphæðar fór í að kaupa flugmiða hjá öðrum flugfélögum.

SAS var nefnilega skuldbundið til að koma fólki á áfangastað þrátt fyrir verkföll. Þar á meðal þeim sem áttu bókað flug með félaginu héðan frá Ósló og Kaupmannahöfn en hluti þeirra var færður yfir til Icelandair. Það skilaði sér í auknum tekjum hjá íslenska félaginu samkvæmt svörum við fyrirspurn Túrista. Ekki hefur þó verið tekið saman hver heildaráhrifin voru.

Á það er bent í svari Icelandair að flugfélög reyni yfirleitt að leysa úr svona málum með því að flytja farþega til flugfélaga sem heyra til sama bandalags en SAS er hluti af Star Alliance samstarfinu. Icelandair er ekki þátttakandi í þess háttar bandalagi en fékk þó hluta af farþegum SAS yfir til sín sem fyrr segir.