Áætlun Ernis og Norlandair stóðst oftar en hjá Icelandair

Fyrri hluta þessa mánaðar reyndi minnst á þolinmæði flugfarþega á Húsavík. MYND: ISAVIA

Fyrri hluta septembermánaðar skiluðu flugvélar Ernis sér til Húsavíkur á réttum tíma í átján skipti af nítján. Áætlunin stóðst því í 95 prósent tilvika þessa fyrstu fimmtán daga mánaðarins. Stundvísi í innanlandsflugi frá Reykjavík til annarra bæja var ekki eins góð og verst þegar kom að flugi Icelandair til Akureyrar.

Það félag var með 67 ferðir norður á dagskrá en fimm þeirra var aflýst og 21 seinkaði. Félagið hélt því aðeins áætlun í sex af hverjum tíu tilvikum í flugi til Akureyrar.

Icelandair tókst betur upp á Ísafirði og Egilsstöðum því þangað komust flugvélarnar á réttum tíma í sjö af hverjum tíu skiptum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Frammistaða Norlandair i flugi til Bíldudals og Ernis til Hornafjarðar var mun betri en þess má geta að ferðir Icelandair til Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða eru mun tíðari.

Í fluggeiranum telst flugferð vera á réttum tíma ef seinkunin er innan við fimmtán mínútur og miðað er við þá venju í útreikningum Túrista hér að neðan.