Samfélagsmiðlar

Að gramma til frægðar

Samfélagsmiðlar stýra að verulegu leyti umferð ferðafólks um heiminn. Marga skiptir öllu á ferðalögum að þræða þá staði sem njóta ofurfrægðar á Instagram.

Ferðafólk við Strokk

Strokkur tryggir sér pláss á Instagram - Mynd: ÓJ

Meðal þess sem ræður úrslitum um það hvort einhver staður laðar til sín ferðafólk er sjáanleiki á samfélagsmiðlum – ekki síst hvort viðkomandi staður er myndrænn og tekur sig vel út í grammi, eða færslu á Instagram. Já, notum sögnina að gramma þennan eða hinn áfangastaðinn: „Ég kom við á Sólheimasandi og grammaði flugvélarflakið.” Staðurinn þarf að vera grammískur, svo snúið sé upp á enska nýyrðið grammable, lýsingarorð um hvað sé nægilega aðlaðandi og áhugavert til að fylgja færslu á samfélagsmiðlinum Instagram. Fyrst var talað um að mynd sem tæki sig vel út á Instagram væri instagrammable en fljótlega varð til styttingin grammable

Skundum á #thingvellir og grömmumMynd: ÓJ

Tölum aðeins um áhrifamátt þessara pælinga um hvort eitthvað sé grammískt, grammískara en annað eða grammískast af öllu öðru – hvað sé vert að gramma og hvort það sé endilega til góðs. 

Það má víða finna á netinu niðurstöður athugana á áhrifamætti samfélagsmiðla á ýmsar athafnir okkar og ákvarðanir, m.a. um ferðalög. Engum blöðum er um það að fletta að fólk lætur í vaxandi mæli stjórnast af því sem það sér og les á samfélagsmiðlum. Sérstaklega á þetta auðvitað við um þær kynslóðir sem mest nota þessa miðla. Stundum er reyndar eins og aðrir komi þó í kjölfarið vegna þeirrar frægðar sem yngra fólkið hefur magnað upp. Frægðarorðið berst hratt nútildags. 

Áætlað er að yngsti ferðahópurinn, fólk frá síðbernsku að 25 ára aldri, stýrist mjög af því sem það sér á Instagram. Þetta er svokölluð Z-kynslóð. Um 45 prósent hennar treysta meðmælum frá einstaklingum sem ranglega eru kallaðir áhrifavaldar hér á landi (þýðing á orðinu influencer). Nær væri að tala einfaldlega um vörulýsendur – eða hvernig líst ykkur á að nefna þá otara í stað áhrifavalda? Þetta er fólk sem fær greitt með einum eða öðrum hætti fyrir að mæla með einhverju- vöru eða þjónustu.

Hvað um það. Verulegur hluti hópsins, um 40 prósent, deilir upplifun sinni á ferðum einmitt með myndum á samfélagsmiðlinum, grammar hingað og þangað. Um fjórðungur þeirra tekur yfir 50 myndir á dag. Stór hluti yngsta ferðafólksins vill ferðast til staða sem koma vel út á Instagram, sama fólk og leggur kapp á að birta myndir af þeim stöðum sem það heimsækir. 

Sjálfa tekin í Reynisfjöru – Mynd: ÓJ

Hvaða staðir ætli séu grammískastir á Íslandi? Finna má á netinu marga lista með vinsælustu Instagram-stöðunum. Þið þekkið þá: Bláa lónið, Harpa og Sólfarið í Reykjavík, Kirkjufell, Stykkishólmur, Húsavíkurhöfn, Stuðlagil, Norðurgata (Regnbogagata) á Seyðisfirði, Jökulsárlón og „Demantaströndin,” Fjaðrárgljúfur, flugvélarflakið á Sólheimasandi, Reynisfjara, Dyrhólaey, Gullfoss, Strokkur og Þingvellir, svo fáeinir séu nefndir. Hollywoodstjörnur og popparar hafa lagt sitt af mörkum, bíómyndir og sjónvarpsþættir með Ísland að baksviði. Það hefur augljóslega mikil áhrif á velgengni einstakra staða eða svæða hvort þar sé að finna bletti eða sjónarhorn sem hægt er að gramma

Húsavík komst á hvíta tjaldið og er vænleg til að gramma – Mynd: ÓJ

Fólk í ferðaþjónustu veltir þessu eðlilega fyrir sér, eins og Túristi hefur sagt frá. Stefán Guðmundsson hjá Gentle Giants á Húsavík orðaði það svona: „Það er misskilningur ef menn halda að við getum haft einsleita ferðaþjónustu og látið hana blómstra. Allt sem er einsleitt, hvort sem það er ferðaþjónusta eða annað, verður fyrir skakkaföllum á endanum. Fjölbreytni rennir styrkari stoðum undir heildina. Ég vil sjá bakpokaliðið þó að það eyði litlu. Það sendir myndir á samfélagsmiðla.”

Austur á Héraði rekur Þráinn Lárusson stórútgerð í hótel- og veitingabransanum. Hann lýsti vanda þeirra svæða sem hafa orðið halloka í keppnina um að grammast sem mest og best: „Nú kemst Mývatn ekki lengur á topplista ferðamannastaða, en þar er fjara og eitthvert flugvélarflak. Þetta lýsir vandanum sem við er að glíma.”

Bíllinn sem flytur ferðafólk niður að flugvélarflaki á Sólheimasandi – Mynd: ÓJ

Friðrik Pálsson á Rangá, sem er einmitt á miðju Suðurlandi, vinsælasta ferðamannasvæðinu, orðar stöðuna þannig: „Ef fólk á samfélagsmiðlunum er alltaf á Suðurlandi, og upplifir það, þá segir það auðvitað frá Suðurlandi – ekki öðrum landshlutum. Til verður keðjuverkun. Ef þú býrð til sterkt vörumerki þá selur það sig sjálft.” Þarna lýsir Friðrik einmitt hversu mikinn sparnaður felst í því fyrir ferðaþjónustuaðila að láta kúnnana sjálfa um að auglýsa, ef svo má segja. 

Akureyri vill komast á kort grammaranna – Mynd: ÓJ

Nýlega kom Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, inn á þetta í viðtali við Túrista. Hún nefndi að velgengni þessa tónlistar- og ráðstefnuhúss okkar væri meðal annars því að þakka hversu vel það myndaðist og nefndi svokölluð Bilbao-áhrif og vísaði þar til frægðar Guggenheim-safnsins þar í borg. „Harpa er íkon fyrir menningu og fegurð, fulltrúi byggingarlistar á heimsmælikvarða.”

Þarna við höfnina stendur hús sem laðar stöðugt að sér fólk. „Það kemur til að skoða húsið og taka af sér myndir,” sagði Svanhildur og hafði á orði að ekki þyrfti í raun ekki að gera mikið til að draga athygli að húsinu. Harpa væri það mikið tögguð á samfélagsmiðlum. 

Harpa mynduð – Mynd: ÓJ

Viðmælendur Túrista hafa ekki aðeins glaðst yfir frægð á Instagram og öðrum slíkum miðlum heldur líka talað um neikvæða þætti, eins og að fólk fari of hratt yfir og láti duga að taka myndir á grammískustu stöðunum. Gamalreyndur hótelrekandi á landsbyggðinni, Sigurlaug Gissurardóttir á Brunnhóli í Hornafirði, sagði að margt fólk komi aðeins til að skoða frægustu staðina og til að taka sjálfu fyrir samfélagsmiðla en eftirsóknarverðast sé ferðafólkið sem kunni að meta að sjá og kynnast lífinu í landinu. Þetta er einmitt viðfangsefnið víða: að láta ekki Instagram-væðinguna algjörlega taka völdin, beina fólki á nýjar slóðir – dreifa álaginu.

Nýr og vænlegur staður fyrir myndatökur: Nýi miðbærinn á Selfossi – Mynd: ÓJ

Túristi hefur sagt frá áhyggjum ferðamálayfirvalda í Kyoto í Japan, sem nú búa sig undir að taka að nýju við ferðafólki. Opnað verður fyrir ferðamannastrauminn inn í landið 11. október. Takmörkunum vegna Covid-19 verður þá aflétt. Haft var eftir leiðsögumanni sem fer með enskumælandi hópa um Kyoto að fyrir heimsfaraldurinn hafi ferðaáætlun flestra einungis mótast af Instagram – því sem er grammískt væri. Dæmigerður túristi fór þá rakleiðis frá aðalbrautarstöðinni að einhverjum af frægustu Instagram-stöðum borgarinnar. Þar skapast síðan umferðaröngþveiti. Yfirvöld ferðamála í Kyoto ætla að gera sitt besta á næstunni til að beina fólki á fleiri myndræna eða grammíska staði í og við borgina til að dreifa álaginu og kaffæra ekki alveg eðlilegt borgalíf og tilveru íbúanna. 

Nýlega var Túristi á ferð í þeirri góðu borg Porto í Portúgal og hafði lesið sér dálítið til um áhugaverðustu staðina. Meðal þeirra sem nefndur var í ferðabókum var Livraria Lello, sem talin er meðal fegurstu bókabúða í víðri veröld, opnuð árið 1881. Húsið er sagt í nýgotneskum stíl með Art Nouveau-áhrifum og að innanverðu sjáist einkenni Art deco-stílsins. Þetta er fagurt hús að utanverðu og örugglega vel þess virði að skoða vel að innan – jafnvel kaupa þar bók, en aðallega þó að fá tækifæri til að taka sjálfu og gramma svo rækilega. Hinsvegar er ekki auðvelt að komast inn fyrir í þessa dýrð alla. Stríður straumur ferðafólks liggur um Rua das Carmelitas að húsinu númer 144 sem hýsir Livraria Lello frá morgni til kvölds. Löng biðröð er fyrir utan en eflaust er einfaldast að taka ráðum dyravarðarins og kaupa ferð með leiðsögn. Túristi taldi tíma sínum í borginni ekki vel varið í að standa í biðröð og kom því ekki í verk að panta skoðunarferð um bókabúðina. 

Fólk hópast að Livraria LelloMynd: ÓJ

Hvað er á seyði þarna á Rua das Carmelitas númer 144? Hvaða hystería er í gangi? Jú, sá orðrómur komst á kreik að J.K. Rowling, höfundur Harry Potter-bókanna, hefði gjarnan lagt leið sína í bókabúðina á meðan hún dvaldi í Porto á árunum 1991 til 93, og sótt þangað fyrirmyndir að Hogwarts í sögunum um Harry Potter. Þetta þykjast siðan gestir sjá þegar þeir berja staðinn augum. Engu virðist skipta að J.K. Rowling segist sjálf ekki hafa komið í Livraria Lello: „Ég hef aldrei komið í þessa bókabúð í Porto. Vissi ekki einu sinni að hún væri til! Hún er falleg og ég vildi að ég *hefði* heimsótt hana, en hún tengist Hogwarts ekki neitt,” segir J.K.Rowling í færslu á Twitter.

Þarna gæti hún verið að gefa í skyn vel geti verið að hún hafi komið í bókabúðina fögru eftir að hafa skrifað bækurnar. En eins og áður sagði, þá láta unnendur Harry Potter-bókanna og eflaust margir aðrir sig litlu varða um hvað höfundurinn sjálfur hefur að segja. Það er frægðin sem gildir – ekki síst frægðin á Instagram. Þetta er einn grammaðasti blettur Porto-borgar, slær út fræg púrtvínshús og Ponte de Luís I, brúna mögnuðu yfir Douro. Svona eru töfrar samfélagsmiðlavæðingarinnar. Veruleikinn bliknar við hlið grammískrar frægðar. 

Buguð af frægð, bókabúðin Livraria Lello – Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …