Boða niðurskurð í flugáætlun vetrarins

Áhöfn Norse. MYND: NORSE ATLANTIC

Eitt þeirra flugfélaga sem stofnað var í heimsfaraldrinum er hið norska Norse Atlantic. Félagið tók yfir fjölda Boeing Dreamliner þota sem áður tilheyrðu Norwegian en það síðarnefnda hefur ekki not fyrir þær lengur enda hætt að fljúga yfir Norður-Atlantshafið. Norse Atlantic ætlar hins vegar að eingöngu að fljúga milli Evrópu og Norður-Ameríku og var jómfrúarferðin farin sumarbyrjun.

Í vetur er gert ráð fyrir að þotur félagsins fljúgi til New York, Los Angeles og Flórída frá Ósló, London og Berlín. Stjórnendur Norse eru hins vegar ekki eins bjartsýnir í dag og þeir hafa verið. Tónninn er alla vega heldur neikvæður í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í morgun.

Þar segir að Norse starfsemin í vetur muni einkennast af varkárni og flugáætlunin verði endurmetin reglulega í takt við eftirspurn. Ástæðan er hækkandi verðbólga í Evrópu, hátt eldsneytisverð og sú staðreynd að dregið hafi úr eftirspurn en hún hafi verið mjög mikil fyrstu mánuðina eftir að Covid-19 faraldrinum lauk.

Norse náði aðeins að selja 69 prósent af sætunum í ferðunum sínum í ágúst sem er töluverð lækkun frá því í júlí. Hjá Icelandair og Play var þróunin ekki á þennan veg.